Hola í höggi á afmælisgolfmóti

Sameiginlegt mót Golfklúbbs Skagastrandar og Golfklúbbsins Óss á Blönduósi var haldið síðasta laugardag og var tilefnið 25 ára afmæli beggja klúbbanna á þessu ári.

Alls tóku 36 golfarar þátt. Mótið var fyrst og fremst til skemmtunar og því var spilaformið svokallað „Texas Scramble“ með forgjöf. Var keppendum raðað upp eftir forgjöf, skipt í miðju og svo dregið saman, einn úr hvorum helmingi.

Fyrri níu holurnar voru leikanar á vellinum í Vatnahverfi við Blönduóss og seinni níu holurnar á Háagerðisvelli á Skagaströnd. Veðrið var stórkostlegt, hitinn var yfir 20 gráður og sólin brosti sínu blíðasta svo svitinn bogaði af hamingjusömum keppendum.

Úrslit urðu sem hér segir:
  1. Sólveig Sigurjónsdóttir GA og Halldór Halldórsson GSS 60 högg
  2. Arnór Snorri Gíslason GSK og Brynjar Bjarkason GSS 62 högg
  3. Björgvin Jónsson GÓS og Björn Sigurðsson GSS 63 högg
Einnig voru veitt nándarverðlaun á par 3 brautum og fyrir fæst pútt.
Á mótinu fór einn golfari holu í höggi á 4. braut á Blönduósi, sem er 164 m par 3 hola. Sá heitir Sigurður Sigurjónsson GKG.

Mótinu lauk með pizzuhlaðborði í Kántrýbæ þar sem verðlaun voru afhent þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar. Efsta myndin er af sigurvegurum mótsins, Sólveigu Sigurjónsdóttur, GA, Halldóri Halldórssyni, GSS. Næsta mynd þar fyrir neðan er af Sigurði Sigurjónssyni, GKG, sem fór holu í höggi á Blönduósvelli.