Hönnunarkröfur vegna nýrra hitakerfa

Byggingarfulltrúi lagði fram í skipulags og byggingarnefnd 25. febrúar sl. samantekt um hönnunarkröfur fyrir þau hús þar sem sett verða upp ný hitakerfi vegna hitaveituvæðingar í Sveitarfélaginu Skagaströnd. Þar sem annar hitunarbúnaður en vatnshitakerfi hefur verið fyrir í eign þarf að leggja nýtt hitakerfi til að taka inn hitaveitu og fá byggingarleyfi fyrir því. Með hitakerfi er átt við nýja vatnsofna og lagnir að þeim, gólfhitakerfi eða sambland af ofna- og gólfhitakerfi.

Í hönnunarkröfunum kemur m.a. fram að reikna skuli varmatap húsa út frá núverandi einangrun þeirra skv. ÍST 30. en taka megi tillit til þess ef fyrirhugað er að endurbæta einangrun einhverra húshluta.  Við hönnun skuli gera ofnatöflu þar sem skilgreind er mesta stærð ofns/ofna í hverju upphituðu rými, hver afköst þeirra eiga að vera, staðsetning tengistúta og gerð ofnkrana. Tilgreina skuli mismun á meðalhita ofna og herbergishita í húsinu sem er 25°C fyrir Skagaströnd. Nýtt hitakerfi skuli teikna inn á grunnmynd af hæð/hæðum húss svo og lagnaleiðir í aðalatriðum. Einnig skuli skilgreina röragerð og þvermál röra. Hönnun hitakerfis megi hins vegar skila á skönnuðum grunnmyndum ef fyrir liggja teikningar af húsinu. Ef fyrirhugað er að setja gólfhitakerfi skuli teikna upp hverja slaufu á grunnmynd húss og skilgreina röraþvermál, lengd og millibil milli röra. Einnig skuli tengigrind teiknuð fyrir gólfhitalagnirnar og stýrikerfi þess. Hönnunarkröfurnar má finna í heild sinni hér.