Hringdi fyrst í Kántrýbæ eftir brotlendingu

Sem betur fer er afar lítið um óhöpp á Spákonufelli. Sænski maðurinn sem þyrlan sótti þangað á sunnudaginn hafði farið upp til að fljúga svokölluðum „paraglider“ en það er vængur sem líkist fallhlíf og hefur mikinn svifkraft. Flug á slíkum vængjum nýtur mikilla vinsælda út um allan heim og jafnvel hér á landi. Vandinn er hins vegar sá að sviftivindar eiga það til að trufla slíkt flug hér á landi. 

Maðurinn hafði gengið upp á Borgarhaus og ekki litist þar á aðstæður enda frekar hvasst uppi. Í gróinni hlíðinni fyrir ofan Leynidal fannst honum aðstæður allar betri og ákvað því að reyna að fljúga.

Þá vildi svo óheppilega til að vindurinn feykti honum svo að segja samstundis yfir að skarðinu við Molduxa og þar brotlenti hann.

Svíinn er vanur ferðamaður og gat bundið um opið fótbrot sem hann fékk við fallið. Hann kom sér vel fyrir, setti fætur upp í hlíðina til að draga úr blæðingunni og vafði álpoka utanum sig. 

Þessu næst hringdi hann í Gunnar Halldórsson, veitingamann í Kántrýbæ, en þeir höfðu rætt saman kvöldið áður og lofaði Gunnar að vera honum innan handar ef hann þyrfti á aðstoð að halda. Gunnar hringdi samstundis í Björn Inga Óskarsson hjá Björgunarsveitinni Strönd og síðan í neyðarlínuna. Björn sendi útkall á félaga í Strönd og Björgunarsveitina Blöndu á Blönduósi. Á þeirri stundu var gert ráð fyrir að bera þyrfti manninn niður í sjúkrabörum. 

Eins og þeir vita sem upp á Spákonufell hafa komið þá er þar brattara en svo að hægt sé að senda bíl á slysstaðinn og var því ákveðið að þyrla færi frá Reykjavík og sækti manninn.

Um það bil fimmtán mínútum áður en þyrlan lenti höfðu fyrstu björgunarsveitarmenn komið á slysstað og þeirra á meðal var Gunnar í Kántrýbæ. Þeir hlyntu vel að Svíanum og biðu svo komu þyrlunnar. Því er haldið fram í fullri alvöru á Skagströnd halda því fram að Gunnar hafi komið með mat fyrir Svíann, Kántrýborgara með frönskum og hráu salati og það hafi bjargað lífi mannsins. Þetta hefur hins vegar ekki fengist staðfest en þó er ljóst að Kántrýborgarinn er mjög eftirsóttur.

Þyrlan lenti á sléttum bletti sem er á milli Molduxa og einstigisins upp á Borgarahaus. Maðurinn var svo fluttur til Reykjavíkur þar sem hann fór í aðgerð. Honum heilsast þokkalega og ætti að ná sér vel. 

Meðfylgjandi mynd er fengin af myndasíðu Björgunarsveitarinnar Strandar, www.123.is/strond.