Hugmyndir um nýtingu Bjarmaness

Hreppsnefnd Höfðahrepps auglýsir eftir hugmyndum um rekstur og starfsemi í Gamla skólanum, Bjarmanesi. Húsið sem var byggt 1913 verður allt gert upp og stílfært til þess tíma sem það var byggt. Skipulag hússins verður þannig að efri hæðin er að mestu einn salur með anddyri, salerni og eldunaraðstöðu neðri hæð verður minna frágengin og líklegt að það nýtist helst sem geymslurými. Reiknað er með að Námsstofa verði til húsa í Bjarmanesi yfir vetrarmánuðina en óskað eftir hugmyndum um rekstur og nýtingu yfir sumarmánuðina. Jafnframt er óskað eftir að þeir sem hafa góðar hugmyndir séu annað tveggja tilbúnir að framkvæma þær á eigin spýtur eða geti bent á leiðir til að hrinda þeim í framkvæmd. Hugmyndum skal skilað á skrifstofu Höfðahrepps fyrir 16. apríl nk. og þar er einnig hægt að fá teikningar af fyrirkomulagi hússins. Hreppsnefnd Höfðahrepps.