Hvað ert þú þakklát/ur fyrir?

 Það er líflegt í litla bænum mínum núna, sjómannadagur og kosningar framundan og bærinn hreinlega iðar af tilhlökkun og spenningi.

 

Það eru ekki margar vikur síðan ég sat og kvartaði yfir því að fólk skartaði orði eins og íbúalýðræði, án þess að hafa nokkurn raunverulegan áhuga á taka þátt og varla áhuga á að kynna sér málin. Þetta get ég ekki sagt í dag.

 

Á vinnustöðum, kaffistofum og á netheimum takast menn á um ýmis málefni og oft skapast fjörugar og skemmtilegar umræður. En þó ekki alltaf. Stundum verð ég hrygg við lestur netmiðla, stundum tapa ég gleðinni eitt andartak og stundum verð ég hreinlega þung á sálinni og svartsýn.

 

Sem betur fer bý ég að því að hafa kynnst 12 spora starfi og eitt stærsta verkefnið sem ég tókst á við þar, var að taka ábyrgð á eigin líðan og upplifun. Mér líkar vel við flesta en þó ekki alla og flestir eru mér góðir en þó ekki allir. Hvort ég læt það skipta mig máli er mitt val. Ég ber ein ábyrgð á viðbrögðum mínum. Enginn annar en ég ber ábyrgð á því hvernig ég kem fram við annað fólk.

 

Annað verkefni í sporastarfinu var hreinlega að breyta því hvernig ég horfi á heiminn. Í stað þess að einblína á þætti sem ekki eru í lagi þá finnst mér gott að fara með æðruleysisbænina og hafa hana bak við eyrað í öllum athöfnum daglegs lífs. Einbeita mér síðan að því sem er gott í kringum mig og þakka fyrir það. Ég er ekki fullnuma í fræðunum, langt því frá, en vonandi þó á réttri leið.

 

Fyrir hvað er ég þakklát í dag? Það er ansi margt:

Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst hér og alist upp að miklu leyti.

Ég er þakklát fyrir son minn og allt sem hann hefur kennt mér og gefið af sér.

Ég er þakklát fyrir það gæfuspor að flytja hingað fyrir tveimur árum.

Ég er þakklát fyrir allt það góða fólk sem hér býr og bauð okkur mæðginin velkomin aftur heim.

Ég er þakklát fyrir öll brosin og glaðværðina sem mætir mér hvert sem ég fer, þó það sé bara út að ruslatunnu.

Ég er þakklát fyrir vinnustaðinn minn. Fólkið sem þar starfar við hlið mér og fólkið sem ég þjónusta.

Ég er þakklát fyrir ódýru íbúðina sem ég leigi af Sveitarfélaginu.

Ég er þakklát fyrir hitaveituna sem gerir það að verkum að ég get staðið undir sjóðheitri bununni eins lengi og ég þarf. Það er gott eftir góðan sundsprett í köldum sjónum.

Ég er þakklát fyrir vöruúrvalið í búðinni og þjónustuna sem ég fæ þar daglega.

Ég er þakklát fyrir náttúrufegurðina, fuglasönginn og fagra fjallasýn, sama í hvaða átt er litið.

 

Þessa dagana er ég jafnframt þakklát fyrir góða hópinn sem skipar H-listann, Skagastrandarlistann. 

Þakklát fyrir þá gleði og bjartsýni sem einkennir þennan samstillta hóp. 

Þakklát fyrir að þarna er fólk sem hlustar og er tilbúið að gera enn betur. 

Þakklát fyrir að þarna er fólk sem ég treysti og fyrir traustið sem mér er sýnt.

 

Ef velgengni þín vegur salt

og vonin er að flaksa.

Þú skalt elska og þakka allt

það sem á að vaxa.

           

            Höf. Hallgrímur Óskarsson

 

Ég hlakka til að sjá ykkur vonandi öll á laugardaginn! Á kjörstað, í skrúðgöngu, sjómannamessu, skemmtisiglingu, á Hafnarhúsplaninu, í sjómannadagskaffi, við talningu atkvæða eða á dansleik í Fellsborg. 

 

Kjósum eftir hjartanu og höfum í huga að hvernig sem þessar kosningar fara, þá ætlum við að búa hér áfram saman í sátt og samlyndi.

 

Kærar kveðjur til ykkar allra

 

X-H Sigurlaug Lára Ingimundardóttir