Hvatningarverðlaun SSNV atvinnuþróunar árið 2007 til

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veitir árlega einu fyrirtæki á starfssvæði samtakana hvatningarverðlaun. Að þessu sinni er það bátasmiðjan Siglufjarðar Seigur ehf á Siglufirði sem hlýtur verðlaunin vegna hugkvæmni og áræðis sem starfsmenn og stjórnendur hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins. Fyrirtækið Siglufjarðar Seigur ehf. var stofnað vorið 2005 af JE. vélaverkstæði ehf. á Siglufirði, Seiglu ehf. í Reykjavík og Siglufjarðarkaupstað. Stjórn félagsins skipa nú: Hrönn Ásgeirsdóttir, stjórnarformaður, Guðni Sigtryggsson, Pálína Pálsdóttir og Sverrir Bergsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Guðni Sigtryggsson. Fyrirtækið var stofnað í þeim tilgangi að byggja plast fiskibáta fyrir innlendan og erlendan markað. Í byrjun fullvann fyrirtækið bátsskrokka sem steyptir voru hjá Seiglu ehf. í Reykjavík og nú nýverið afhenti fyrirtækið 7. bátinn og 3. bátinn sem fyrirtækið byggir alfarið, þ.e. skipsskrokkurinn er steyptur hjá fyrirtækinu og báturinn fullgerður að öllu leyti. Fyrirtækið hefur selt einn af þessum bátum til Noregs. Framleiðsla þessi er í nánu samstarfi við JE vélaverkstæði ehf. og Rafbæ ehf. Hjá fyrirtækinu vinna nú fjórir sérþjálfaðir starfsmenn sem sótt hafa námskeið og hlotið mikla þjálfun í meðferð og vinnslu plastefna. Hjá JE. vélaverkstæði starfa járn- og tréiðnaðarmenn með mikla færni og reynslu í smíði eins og þessi verkefni krefjast. Rafbær ehf. hefur á að skipa rafvirkjum með mikla reynslu í skipaviðgerðum og nýsmíði. Þannig er samankomið einvala lið til að annast framkvæmdir sem þessar. Það er samdóma álit þeirra sem keypt hafa bát af fyrirtækinu svo og úttektar- og skoðunarmanna allra, að gæði og frágangur allur sé með því besta sem gerist. Stígandi hefur verið i framleiðslu fyrirtækisins og vonandi mun svo áfram verða. Það er markmið fyrirtækisins að smíða báta sem eru samkeppnishæfir í verði og gæðum á við það sem best gerist, bæði innanlands og utan, og tryggja viðskiptavinum sínum þjónustu sem uppfyllir þarfir þeirra og óskir eins og best er á kosið.

Verðlaunagrip hvatningarverðlaunana hannaði Fríða Björk Gylfadóttir, listamaður á Siglufirði. Fríða hefur haft opna vinnustofu og gallerí frá árinu 2003. Núverandi aðstaða Fríðu er að Túngötu 40a á Siglufirði.

Adolf H. Berndsen formaður SSNV afhenti hvatningarverðlaunin í húsakynnum Siglufjarðar Seigs þriðjudaginn 29. maí síðastliðinn.

Hvatningarverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra.