Hverjir eru á myndunum?

Fjölmargar myndir eru komnar inn á vefsvæði Ljósmyndasafns Skagastrandar. Enn vantar góðar upplýsingar um margar þeirra, meðal annars þær sem hér eru birtar. Þess vegna er leitað til kunnugra í þeirri von að hægt sé úr að bæta.

Slóð ljósmyndasafnsins er að finna vinstra megin á forsíðu skagastrond.is.

Efri myndin er tekin á sjómannadaginn 1943 samkvæmt áritun aftan á myndinni. Myndin er úr safni Elísabetar Berndsen, en ekki er vitað um ljósmyndarann. Ekki er heldur vitað með óyggjandi hætti hverjir eru á myndinn, hvort það eru heimamenn eða aðkomumenn.

Seinni myndin er líklega tekin á sjötta áratugnum í frystihúsinu Hólanes þar sem nú er Nes listamiðstöðin. Á henni eru nokkrar konur við pakkningu en ekki er vitað hverjar þær eru.

Allar upplýsingar um þessar myndir eru vel þegnar. Hægt er að færa þær inn á vef Ljósmyndasafnsins eða hringja í Hjalta Reynisson, verkefnisstjóra safnsins, en síminn hjá honum er 455 2700 og er hann við fyrir hádegi alla virka dag.

Yfir eitt þúsund myndir eru nú komnar á vef Ljósmyndasafnsins. Ýmist er um að ræða myndir af þekktu fólki og aðstæður sem kunnar eru. Hins vegar vandast málið með margar aðrar og því er leitað til þeirra sem hugsanlega þekkja til. Fólk er hvatt til að skoða safnið færa inn réttan texta á þeim myndum sem það þekkir eða hafa samband við Hjalta.