Hverjir eru á myndunum?

Á Hólanesi stóðu tveir spariklæddir drengir með hjólin sín, báðir í hvítri skyrtu, annar með bindi, hinn með slaufu. Þetta var líklega að vori til og atvikið væri líklega löngu gleymt ef  Guðmundur Guðnason hefði ekki fest það á filmu. En hverjir eru þessir drengir sem standa þarna í hlýjunni á nesinu undir gráum vorhimni og í fjarska sér inn til fjalla og dala?

Nú leitar Hjalti Reynisson, verkefnisstjóri, Ljósmyndasafns Skagastrandar að þeim sem svarað geta spurningunni. Og Hjalti leggur fram aðra mynd.

Þá hefur Guðmundur líka tekið og í þetta sinn er hann inni í gamla Hólanesfrystihúsinu þar sem nú er Nes listamiðstöðin. Hverjir skyldu þessir fjórir karlmenn vera sem vönum höndum flaka fisk?

Í síðustu viku var birt mynd og leitað eftir nöfnum karla sem stóðu í fullum sjóklæðum. Myndin er tekin á sjómannadagin 1943 eða 44, eftir boðhlaupskeppni, stakkahlaup.Frá vinstri: Ólafur Ásgeirsson, Ingvar Jónsson, Hákon Magnússon, Björgvin Jónsson, Guðmundur Jóhannesson, Þorbjörn Jónsson, Hartmann Jóhannesson, Hallgrímur Kristinsson, Snorri Gíslason, óþekktur maður ,Sigurjón Magnússon og Pálmi Sigurðsson.

Einnig var leitað eftir nöfnum kvenna í Hólanesfrystihúsinu. Þar er verið að vinna í 5 punda pakkningar í gamla Hólanesfrystihúsinu. Önnur konan frá vinstri er Teitný Guðmundsdóttir. Sigurður Magnússon verkstjóri er fyrir innan.