Kanntu að lesa ársreikning?

Farskólinn Norðurlands vestra býður upp á námskeið hér á Skagaströnd. Það fjallar um lestur ársreikninga og er ætlað að auðvelda fólki að greina helstu aðalatriðin í ársreikningum svo þeir skiljist nær umsvifalaust.

Námskeiðið er í tilefni Alþjóðlegu athafnavikunni. Það verður haldið í Farskólanum - miðstöð símenntunar, Faxatorgi 1, Sauðárkróki þann 16. nóvember kl. 18:00 - 21:00 og verður fjarkennt til Skagastrandar ef áhugi er fyrir þátttöku hér.

Leiðbeinandi er Birgir Þ. Rafnsson.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um meginreglur þær er gilda um ársreikninga, efni þeirra og framsetningu. Áhersla er lögð á að öðlast skilning á því mikilvægasta varðandi greiningu og lestur þeirra og geti einnig unnið áætlanir um stærstu rekstrarliði. 

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér einfaldar en árangursríkar aðferðir til að lesa ársreikninga og gera áætlanir.   

Námskeiðið er ætlað þeim sem koma að rekstri fyrirtækja, innkaupum, starfsmannamálum og stjórnun. Einnig fyrir þá sem hafa hug á því að vinna að eigin viðskiptahugmynd hjá Vinnumálastofnun og/eða SSNV atvinnuþróun.  

Námskeiðið getur líka verið gagnlegt þeim er hyggjast sækja um verkefnastyrki innan lands og utan og þurfa að vinna áætlanir vegna þess.  

Námskeiðið nýtist jafnframt einstaklingum við rekstur heimilis og stjórnun eigin fjármála. Léttar veitingar í boði.

Nánari upplýsingar og skráning er á vefsíðu Farskólans – miðstöðvar símenntunar: 

http://farskolinn.is/namskeid/ns/lestur-arsreikninga/dagsetning/18/10/2010/cal_details/event/tx_cal_phpicalendar/view-list|page_id-148/  eða í síma 455-6010.

Námskeiðsgjald er kr. 1.500 og greiðist við komu.  Námskeiðið er styrkt af SSNV og Vinnumálastofnun.