Kántrýdagar 17.-19. ágúst

Undirbúningur fyrir Kántrýdaga stendur nú sem hæst og er dagskráin sem óðast að taka á sig mynd. Kántrýdagarnir verða með mjög svipuðu sniði og í fyrra enda feikna vel heppnaðir þá.

Á föstudeginum 17. ágúst er gert ráð fyrir að yngsta kynslóðin byrji með því að bjóða heim í Smábæ á Kofavöllum og kynni húsakynni og bæjarbrag í kofabyggðinni. Eftir það verður boðið til Kántrýsúpu að hætti Sibba í hátíðartjaldi. Þá munu Gummi Jóns og einhverjir fleiri vera með tónlistardagskrá í tjaldinu. Í Kaffi Bjarmanesi verður tónlist að hætti Haldapokanna fram yfir miðnætti. Hljómsveitin Sólon leikur svo fyrir gesti og dansara í Kántrýbæ fram til kl. 03.

Laugardagurinn 18. ágúst byrjar á dorgveiðikeppni á höfninn kl. 11.00.  Flóamarkaður verður opnaður í gamla vinnsluhúsinu á Hólanesi (Fjörubraut 8). Þar verður lagt upp með að fólk finni einmitt það sem það vantar hjá þeim sem þurfa einmitt að losna við sömu nytjagripi. Hoppukastalar verða svo settir upp á hátíðarsvæðinu kl 13.00 en barna- og fjölskyldudagskrá hefst kl 15.00. Þar verður margt gott til skemmtunar fyrir börn á öllum aldri. Í Kaffi Bjarmanesi verður kaffihlaðborð kl 15-18. Þegar líður á daginn þyngist takturinn og kl 17.00 verður rokkað í hátíðartjaldi þar sem ungar hljómsveitir taka nokkrar syrpur. Á hótel Dagsbrún verður skjávarpasýning á myndum af fólki og fyrirbærum á Skagaströnd. Barinn á hótelinu verður opinn fyrir þá sem eiga erfitt með að horfast í augu við gömlu myndirnar af sér.  Stóru grillin verða svo hituð upp og höfð til staðar fyrir sameiginlegu grillveisluna þar sem hver kemur með sinn búnað og grillmeti. Hugmyndir eru uppi um að veita verðlaun fyrir frumlegasta picnik búnaðinn. Skemmtidagskrá á palli hefst svo kl 20.30 þar sem verður Afró danssýning og Hara systur, Gis Jóhannsson, Lúgubandið, Angela og Hans Birgir og fleiri skemmta. Í Kántrýbæ verður svo dansað fram á nótt við undirleik Kántrýsöngvarans Gis og félaga.

Sunnudaginn 19. ágúst verður hin hefðbundna ómissandi gospellmessa í hátíðartjaldi og hefst kl 13.30. Þar mun séra Fjölnir Ásbjörnsson stýra messuhaldi en Óskar Einarsson stjórna gospellkórnum.

 

Íbúar eru hvattir til að skreyta hús, garða, götur, bíla, sjálfa sig og hvern annan.  Í fyrra var áberandi að íbúar í ákveðnum götum stóðu sérlega vel að skreytingum og eru væntingar til að fleiri sýni góða takta í þessum efnum.

 

Stöndum saman og skemmtum okkur saman

 

Tómstunda- og menningarmálanefnd