Kántrýdagar ganga í garð.

Nú eru Kántrýdagarnir að renna upp og íbúar á Skagaströnd að komast í hátíðarskap. Í gærkvöldi (fimmtudag) var mikið um að vera. Íbúar við hverja götu komu saman og útbjuggu og settu upp alls kyns skraut og skreytingar. Eiginlega var hálfgerð karnivalstemming því um leið og skreytingar komu upp í einni götu hófst rúntur eða göngutúrar um hana til að skoða og sjá hvernig þetta væri nú gert. Kannski svolítil samkeppni en allt á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Eiginlega minnti þetta svolítið á þegar jólaskreytingarnar eru að koma upp á aðventunni. Stemningin ekkert ólík enda Kántrýdagar að mörgu leyti líkir jólunum í eðli sínu. Dagar til að gleðjast, skreyta og fagna, hafa gaman.

Dagskráin hefst svo í dag kl 18.00 með því að krakkarnir bjóða heim í kofabyggðina og halda uppskeruhátíð á garðræktinni. Svo er kántrýsúpan kl 19.00 og þá fara hoppukastalarnir í gang. Kántrýsöngvarinn Gis Jóhannsson og Guðmundur Jónsson sjá svo um tónlistina í hátíðartjaldinu en Haldapokarnir trekkja stemninguna í Kaffi Bjarmanesi. Í Kántrýbæ sér hljómsveitin Sólon um stuðið fram á nótt.