Karnival í leikskólanum

Það var hvort tveggja yndislegt og skemmtilegt að mæta leikskólanum á karnival-göngu sinni um bæinn síðasta fimmtudag. Hópurinn var klæddur í ýmis konar furðubúninga, börn ekki síður en fullorðnir og sumir voru meira að segja málaðir. Ekki spillti nú veðrið fyrir, sól skein í heiði og vindurinn var nokkurn veginn kyrrstæður.

 

Hópurinn lék við hvern sinn fingur, söng og trallaði. Þetta var aldeilis tilbreyting í bæjarlífinu. Jafnvel rykugir skrifstofuþrælar örkuðu út í glugga og sagt er að gamalt bros hafi kviknað í ólíklegustu andlitum. Aðrir gengu út og samfögnuðu liðinu úr leikskólanum. Að flestra áliti mættu fleiri taka leikskólann sér til fyrirmyndar og spauga á þennan eða álíka hátt.