Kjörbúðin opnuð á Skagaströnd, 16.feb 2017

 

Starfsfólk Samkaupa, Skagstrendingar og aðrir gestir

 

Mig langar f.h. Sveitarfélagsins Skagastrandar að óska okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu andlitslyftingu sem hefur orðið á versluninni hér á Skagaströnd.  Einnig langar mig við þetta tækifæri að þakka Samkaupum samfylgdina í þau ár sem liðin eru frá því að félagið tók við rekstri verslunar hér á staðnum...  enda tel ég að flestir séu sammála um að sú breyting hafi verið til batnaðar. Ykkur hefur tekist að halda í gott starfsfólk en slíkt er auðvitað forsenda fyrir því að allt geti gengið vel.... Takk kærlega fyrir okkur Vigdís og aðrir starfsmenn hér á Skagaströnd.

Almennt talið held ég að íbúar Skagastrandar geri sér grein fyrir að verslunarrekstur í ekki stærra samfélagi en okkar er ekki einfaldur og alls ekki sjálfgefinn....en engu að síður ákaflega mikilvægur í samfélags- og byggðalegu tilliti. Ég held þess vegna að færri og færri stundi skipulegar innkaupaferðir út fyrir Skagaströnd og ég vona svo sannarlega að þess beri merki í ykkar veltutölum. Aukin þjónusta, lengri opnunartími og loforð um lægra vöruverð ættu að sjálfsögðu að vera hvatning til fólks um að halda tryggð við  KÖRBÚÐINA SÍNA.

Þrátt fyrir þessar þakkir og allt þetta lof í ykkar garð er þó vonandi öllum ljóst að alltaf er hægt að gera betur og við sem neytendur eigum svo sannarlega að gera kröfur og vera dugleg að benda á það sem betur má fara...rýna til gagns. Á sama hátt eigið þið að gera kröfu um að gangrýni sé sett fram á sanngjarnan og uppbyggilegan hátt.

Sveitarstjórn Skagastrandar hefur í nokkuð mörg ár reynt að beita  Ámundarkinn, sem er eigandi húseignarinnar,  þrýstingi til að ráðast í löngu tímabærar aðgerðir er varðar viðhald og endurbætur á sjálfu verslunarhúsinu. Því miður hefur lítið miðað í þeirri baráttu en ykkar framtak hér innandyra mun væntanlega kalla enn frekar á að slíku viðhaldi verði sinnt.  

 Kæra Samkaupsfólk.... það er mín einlæga von að breytingar á versluninni muni reynast vel og þær séu merki þess að Samkaup sé sátt með rekstur sinn í okkar ágæta samfélagi og okkar hagsmunir muni því halda áfram að liggja saman.

Innilegar hamingjuóskir með KJÖRBÚÐINA.

Ræða Halldórs Ólafssonar í tilefni opnunarinnar.