Kosið á laugardaginn frá 10 til 21

Á laugardaginn ganga landsmenn til þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu eða synjun á svokölluðum Icesave lögum.

Á kjörseðli er spurt hvort lögin eigi að halda gildi eða falla úr gildi. Meirihluti gildra atkvæða af landinu öllu ræður úrslitum og vægi atkvæða er jafnt. Ef meirihluti svarar neitandi falla lögin úr gildi að öðrum kosti standa þau óbreytt.

Á Skagaströnd verður kjörfundur í Fellsborg. Hann hefst klukkan 10 og lýkur klukkan 21. Kosning utan kjörfundar er eftir samkomulagi við Lárus Ægir Guðmundsson, hreppstjóra „ad hoc“, fram á föstudagskvöld.

Skagstrendingar eru hvattir til að nýta sér kosningarétt sinn og taka afstöðu í þessu mikilvæga máli.

Í hnotskurn
Greidd verða atkvæði um gildi laga nr. 13/2011 sem Alþingi samþykkti 16. febrúar 2011 en forseti Íslands synjaði staðfestingar þann 20. sama mánaðar. 

Lögin veita fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, heimild til að staðfesta samninga sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, svonefnda Icesave-samninga. 

Samningarnir fjalla um ábyrgð íslenska ríkisins á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins.

Endurgreiðslan er vegna kostnaðar ríkjanna tveggja af greiðslu innstæðutryggingar til viðskiptavina í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgð íslenska ríkisins er vegna greiðslu eftirstöðva endurgreiðslufjárhæðarinnar, verði um eftirstöðvar að ræða, og vaxta af þeim skuldbindingum.

Markmið atkvæðagreiðslunnar er að fá fram afstöðu þjóðarinnar til umræddra laga eins og stjórnarskráin mælir fyrir um. 

Upplýsingar um afstöðu þeirra sem samþykkir eru Icesave lögunum er m.a. að finna á þessari vefsíðu http://www2.afram.is.

Nei
Upplýsingar um afstöðu þeirra sem ósammála eru Icesave lögunum er m.a. að finna á þessari vefsíðu http://www.advice.is.