Kreppuráð Láru - frábær fyrirlestur

„Ef mér gengur illa að sofna af áhyggjum segi ég bara gafall, gaffall, gaffall, gaffall í huganum. Gaffall hefur aldrei valdið mér neinum vandamálum. Þannig reyni ég að ýta burtu úr huga mér þunglyndislegum hugsunum sem gera mér ekkert gott,“ segir Lára Ómarsdóttir á afar fróðlegum og ekki síður skemmtilegum fyrirlestri í Bjarmanesi í gærkvöldi.

Fundurinn var haldinn af Vinnumálastofnun og Farskóla Norðurlands vestra. Lára var eini fyrirlesarinn og tilgangurinn var að hún segði frá þeim ráðum sem hún og eignmaður hennar hefðu gripið til þegar erfiðleikar steðjuðu að fjölskyldu hennar.

Hið höfum það ágætt núna sagði Lára sem kynntist miklum fjárhagserfiðleikum fyrir nokkrum árum. Hún og maður hennar eiga fimm börn og það var ekkert grín að finna ráð til að fæða og klæða svona stóra fjölskyldu þegar lausafé var naumt og reikningarnir hrúguðust inn. Eflaust hefðu einhverjir látið hugfallast, en ekki Lára. Hún segir að það geti verið erfiðir tímar framundan en finnst ekki ástæða til að kvíða því sérstaklega.

Fjölskyldan setti sér ákveðna heimspeki sem byggði á skipulagi í naumum fjárhag og ekki síður að sjá alltaf vonarglætu í tilverunni. „Greiddu fyrst af öllu reikninganna,“ segir Lára ákveðin. Svo bætir hún við: „Þó maður eigi ekki mikla peninga þýðir ekkert að leggjast í þunglyndi. Við höfum bara áhyggjur af fjármálunum þrjá daga í mánuði, síðasta dag mánaðarins og tvo fyrstu dagana. Síðasta dag mánaðarins vorum við oft ansi fátæk og þá var akkúrat tími til að hafa áhyggjur af því hvort maður eigi mat fyrir fjölskylduna. Daginn eftir er útborgunardagur og þá skipulegg ég fjármál mánaðarins.“

Lára segist gera plan til eins árs. Hún ákveður fyrirfram að greiða reikninga á réttum gjalddögum, standa í skilum með allt. Ef hún sér fram á að geta það ekki þá leitar hún til lánardrottna og biður um lagfæringu á láni, því ekki má láta lánin fara í vanskil, það er einfaldlega alltof dýrt. Þegar hún hefur gengið frá greiðslum á lánum þá sér hún hvaða peninga hún á til annarra hluta. „Og þeir hafa oft ekki verið miklir,“ segir Lára.

Fjölskyldan sest niður og gerir þá áætlun fyrir heilan mánuð. Býr til töflu  og skráir hvað eigi að vera í morgunmat, hádegismat, miðdegiskaffi og kvöldmat. „Oftast er ekkert kvöldkaffi enda bara óhollt að borða fyrir svefninn,“ segir Lára og hlær hlátri sem ekki er ólíkur þeim hrossahlátri sem einkennir karl föður hennar, Ómar Ragnarsson, fréttamann, stjórnmálamann og grínara. Lára deilir síðan handbærum peningum niður á hverja viku og þá kemur í ljós hvað má eyða á hverjum degi. 

„Kreditkort er verkfæri djöfulsins, það á maður aldrei að nota,“ segir Lára. „Því fylgir bara kostnaður og ofneysla,“ og orðum hennar fylgir mikil sannfæring. Hún segist ekki heldur nota debetkort vegna þess að það hvetur aðeins til meiri eyðslu. “Best er að hafa seðlana í höndunum, nákvæmlega þá fjárhæð sem maður þarf að nota hverju sinni.“ Og það gerir Lára þegar hún verslar í matinn. Hún fer út í Bónus með innkaupalista og kaupir ekkert nema það sem á honum stendur og skrifar verðið hjá sér og reiknar út heildarfjárhæðina áður en hún fer á kassann. 

„Stundum stemmir ekki hjá mér vegna þess að verslanir eru stundum með annað verð í hillum en á kassa. Þeir sem nota kort þeir taka ekkert eftir þessu og á því græðir verslunin. Hugsið ykkur ef vara er einni krónu dýrari á kassanum, þá græðir verslunin rosalega.“

En lífið er ekki bara fjármál hjá Láru. Hún sagðist hafa lært það í erfiðleikum sínum að ekki væri allt tómt svartnætti. „Alltaf er eitthvað gott, eitthvað til að þakka fyrir,“ segir hún. „Ég hef það fyrir venju að þakka fyrir smá og stór atriði sem gefa lífinu gildi. Ég þakka fyrir að vakna á morgnanna, þakka fyrir að sjá börnin mín, þakka fyrir gott veður. Ég þakka meira segja fyrir þegar einhver heimiliskötturinn strýkst við fótlegginn á mér. Það er svo ákaflega margt sem er gott og ástæða til að þakka fyrir það. Með þessu móti sér maður lífið í öðru ljósi og allt verður skemmilegra.“

Og fjölskyldan naut lífsins þrátt fyrir naum efni. Raunar var það þannig hjá Láru að skipulagið átti vel við börnin: „Þau vilja hafa allt i föstum skorðum. Þegar við höfum hætt að gera svona áætlun þá hafa börnin kvartað. Þau vilja líka halda sig við hana, kvarta ef ekki er réttur matur á borðum. Hins vegar vita þau að lífið er ekkert endilega sanngjarn. Við þurfum ekki öll að borða jafn mikið, og stundum borðar einhver meira en hann mátti. Þannig er það bara.“

Fjölskyldan skemmtir sér og reynir að njóta lífsins. „Við fíflumst að minnsta kosti eitt kvöld í viku,“ segir Lára og fundargestir skilja ekki. Hún skýrir mál sitt: „Til dæmis á föstudagskvöldi tökum við okkur til og klæðum við okkur upp í asnalega búninga og við fíflumst einfaldlega eins og við getum, syngjum og látum eins og við eigum ekki að gera. Þetta eru ákaflega skemmtileg kvöld, við fáum útrás og á eftir líður öllum svo óskaplega vel.“

Hér er ekki pláss til að endursegja allan fyrirlestur Láru. Um tuttugu manns komu og hlýddu á fyrirlesturinn og er óhætt að segja að allir hafi haft bæði gagn og gaman af. Allir hrifust af þessari hugrökku konu sem var svo hreinskilin, sagði frá lífi sínu, mistökum sínum og endurreisn. Nú þegar mikið rætt um kreppu og ýmis konar óáran er tilvalið að taka Láru sér til fyrirmyndar. Lífið heldur áfram og það er kostur að geta sveigt það eftir aðstæðum sem stundum virst geta verið grimmar en þegar nánar er að gáð eru möguleikarnir óteljandi. Allt er það spurning um hugarfar.