Kveikt á jólatrénu á Skagaströnd

Kveikt var á ljósunum á jólatrénu á Skagaströnd í gær. Lítilsháttar frost og smávægileg snjófjúk kom ekki í veg fyrir að jólasveinarnir mættu á staðinn og þarna á Hnappstaðatúninu voru auðvitað mætt langflest börn á Skagaströnd og foreldrar þeirra.

Svo var sungið og dansað í kringum jólatréð sem lék við hvern sinn fingur eða grein. Jólasveinarnir komu víða að meðal annars var þarna einn sem talaði bara útlensku. Hann var líklega í námsferð hjá þeim íslensku. Þeir kokmu færandi hendi og er það líklega tímanna tákn að þeir útdeildu "blandi í poka" til allra barna en ekki einhverju fornlegu eins og kertum eða spilum.

Grýla var víðs fjarri með pokann sinn og var hann sem endranær galtómur.