Lagning hitakerfis í leikskólann Barnaból

Framkvæmdir eru hafnar við að leggja vatnshitunarkerfi í leikskólann Barnaból. Hann hefur verið hitaður með rafmagnsþilofnum og neysluvatn hitað í tveimur rafmagnshitakútum. Auk þess að leggja nýtt hitakerfi í húsið verður neysluvatnskerfið endurnýjað.

Vegna lagningar hitaveitu um Skagaströnd í sumar eru framkvæmdir hafnar við fyrrgreinda breytingu sem er í raun byrjun á að breyta eignum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að tengjast hitaveitunni. Framkvæmdin er ekki einföld þar sem leikskólinn er byggður í tveimur byggingaráföngum og í fullri starfsemi alla virka daga.  Verkið er því að mestu unnið utan dagvinnumarka. Þar sem tenging við hitaveitu verður ekki í boði fyrr en næsta haust verður að halda rafhitunarbúnaði þar til tenging getur farið fram.

Samið var við Vélaverkstæði Skagastrandar um pípulagnirnar en pípulagnameistari að verkinu er Steinar Þórisson.

Framundan eru svo breytingar á öðrum fasteignum sveitarfélagsins sem hafa verið hitaðar með sama hætti og leikskólinn. Sveitarfélagið á 11 íbúðir sem eru í dag hitaðar með rafmagnsþilofnum og auk þess eru nokkrar aðrar byggingar með þeim hitunarbúnaði.