Landaður afli í gegnum fiskmarkaðinn yfir 4000 tonn

Sala hjá fiskmarkaði Örva ehf. á Skagaströnd fór yfir 4000 tonn í gær. Fiskmarkaðurinn hefur vaxið verulega á síðustu árum en á árinu 2004 fóru um 3000 tonn í gegnum markaðinn en sala ársins 2003 var um 1900 tonn. Hefur því salan rúmlega tvöfaldast á 2 árum. Hluti þessa afla er landað í Sauðárkrókshöfn. Fiskmarkaður Örva þjónustar fjölmarga báta, skip og togara sem koma inn til löndunar í Skagastrandarhöfn þar sem eigendur bátanna taka fiskinn til sín til eigin vinnslu eða sölu. Flestir bátar eru á línuveiðum um þessar mundir og eru aflabrögð mjög góð og oftast 200-300 kg. á bala. Í tilefni þessara tímamóta var viðskiptavinum boðið í kaffi og meðlæti en á meðfylgjandi mynd má sjá bræðurna Lárus Ægi og Ingiberg Guðmundssyni forssvarsmenn Örva ehf.