Landaður fiskafli tvöfaldast á Skagaströnd

Gríðarleg breyting hefur orðið á umsvifum í Skagastrandarhöfn. Mikill afli berst nú til lands og á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins barst 55% af þeim afla sem hér var landað allt síðasta tímabil.

Fiskveiðitímabilið hefst sem kunnugt er í september. Landaður afli á Skagaströnd á þremur fyrstu mánuðum þess er nú rúmlega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra.

Í september, október og nóvember bárust á land samtals 3.282 tonn, en sömu mánuði í fyrra var landað 1.580 tonnum og árið 2006 var aflinn 1.865 tonn.

Þetta er afar mikil breyting og því til staðfestingar má nefna að allur afli  síðasta fiskveiðiári var 5.984 tonn en þar áður var aflinn 9.273 tonn. 

Það sem af er hafa átján skip og bátar lagt upp á Skagaströnd, sumir einu sinni og aðrir mun oftar.

Aflahæstu skipin eru þessi:

  • Rifsnes SH44 - 188.235 tonn
  • Valdimar GK195 - 160.492 tonn
  • Kristinn SH112 - 159.094 tonn
  • Sturla GK12 - 150.050 tonn
  • Örvar SH77 - 83.836 tonn

Togarinn Arnar kom 24. nóvember og landaði samtals 317.930 tonnum af frystum flökum og heilfrystu.