Lárus Ægir maður ársins á Húnahorninu

 

Lesendur Húnahornsins hafa valið Lárus Ægi Guðmundsson á Skagaströnd mann ársins 2008 í Húnaþingi. Lárus Ægir fékk yfirburða kosningu í valinu eða rúmlega 80% atkvæða. Lárus Ægir stofnaði á síðasta ári styrktarsjóð til eflingar menningar- og listalífi á Skagaströnd og Skagabyggð.

 

Sjóðnum er einnig ætlað að greiða styrki til þeirra sem verða fyrir slysum eða alvarlegum veikindum og þarfnast aðstoðar. Stofnfé sjóðsins eru 50 milljónir króna og áætlað að styrkir úr honum geti numið allt að 5 milljónum á ári.

 

Lárus Ægir er borinn og barnfæddur á Skagaströnd og liggja rætur hans þar sem hefur hann starfað mestan hluta ævi sinnar. Af þeim verkefnum sem hann hefur unnið að má nefna þessi:

 

·         Sveitarstjóri á Skagaströnd frá árinu 1972 til 1984.

·         Framkvæmdastjóri frystihússins Hólanes frá 1984 til 1994.

·         Stofnandi, eigandi fiskmarkaðarins Örva á Skagaströnd, 

framkvæmdastjóri hans frá 1994 til 2007.

Lárus Ægir hefur sinnt fjölmörgum málum sem til framfara hafa horft á Skagaströnd. Hann keypti meðal annars í félagi við aðra gamla kaupfélagshúsið og gerði það upp. Húsið hefur að hluta til þegar verið tekið í notkun og í því eru skrifstofur Menningarráðs Norðurlands vestra og BioPol ehf. Hann átti líka þátt í að kaupa húsið sem áður var frystihúsið Hólanes en til stendur að breyta því og finna hentuga starfsemi fyrir það.