Laufey Lind vann til verðlauna í smásagnasamkeppni FEKÍ

Laufey Lind Ingibergsdóttir, nemandi í 10. bekk Höfðaskóla, sigraði í sínum flokki í smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi (FEKÍ). Í vetur tók Höfðaskóli tók í fyrsta sinn þátt í samkeppninni sem hefur undanfarin sjö ár verið haldin í tengslum við Evrópska tungumáladaginn.

 

Fyrirkomulag keppninnar er þannig að nemendur í 3.-10. bekk í grunnskólum, sem og nemendur framhaldsskóla geta tekið þátt í keppninni. Verðlaunasæti eru alls ellefu, 1.-3. sæti í þremur flokkum; 7.-8. bekkur, 9.-10. bekkur og framhaldsskóli og svo 1.-2. sæti í flokknum 3.-6. bekkur. Nemendur eiga að skrifa sögurnar sínar út frá fyrirfram gefnu þema. Þemað að þessu sinni var Roots (rætur).

Verðlaunaafhending fór fram á Bessastöðum síðastliðinn föstudag þar sem forsetafrú Íslands, Eliza Reid, setti athöfnina og veitti verðlaun ásamt stjórn FEKÍ.

Laufey Lind lýsti þátttöku sinni í keppninni og verðlaunaafhendingunni þannig:

„Snemma í nóvember kynnti enskukennarinn okkar, Helga Gunnarsdóttir, fyrir okkur smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi, FEKÍ. Hún sagði okkur að við ættum, sem verkefni í skólanum, að skrifa smásögu á ensku og skila inn fyrir 4. desember og að svo myndi hún og Vera skólastjóri velja eina sögu úr hvorum flokki (7. & 8. bekkur og 9. & 10. bekkur). Yfirheiti keppninnar það árið var “Roots”, eða á íslensku, rætur.

Ég fékk strax hugmyndina að sögunni minni sem ég kalla The tree og byrjaði að skrifa hana í tíma, kláraði hana svo þegar ég kom heim sama dag, sendi til systur minnar, Maríu, til að fara yfir og skilaði svo sögunni daginn eftir til Helgu; ennþá með tæpan mánuð eftir.

Þá byrjaði biðin.

Helga greindi ekki frá úrslitum innan skólans fyrr en í byrjun desember og þá var aftur beðið.

Um miðjan janúar fékk Helga tölvupóst þar sem hún fékk að vita að ég hefði unnið og að við myndum seinna fá að vita hvar og hvenær verðlaunaathöfnin yrði. Við fengum svo formlegt boðskort í febrúar þar sem okkur var boðið á Bessastaði.

Þegar ég, mamma, pabbi og Helga komum á Bessastaði föstudaginn 3. mars þá voru margir komnir enda ég ekki eina manneskjan til að vinna til verðlauna í þessari keppni, því það eru fyrsta annað og þriðja sæti í efstu þremur hópunum, 7. & 8., 9. & 10. og framhaldsskólaaldur, og svo fyrsta og annað úr 3.- 6. bekk. Einnig voru flestir verðlaunahafar með foreldrum sínum og enskukennara.

Eliza Reid, forsetafrúin, tók á móti okkur og við söfnuðumst saman í salinn þar sem fálkaorðurnar eru veittar. Eliza hélt stutta ræðu. Svo kom fulltrúi stjórnar FEKÍ og óskaði verðlaunahöfum til hamingju. Við fengum öll viðurkenningu, enska bók og hefti með öllum verðlaunasögunum. Eftir það var myndataka.

Við Eliza spjölluðum svolítið en svo bauð hún öllum að skoða húsið og fá kleinur, kaffi og djús. Eftir skoðunarferð voru teknar nokkrar myndir því það er ekki á hverjum degi sem  ég er boðin á Bessastaði.

Seinna frétti ég að forsetinn, Guðni Th. hefði verið á eineltisráðstefnu og þess vegna ekki verið þarna en þetta var engu að síður mjög skemmtileg reynsla.“

Við óskum Laufeyju Lind til hamingju með árangurinn.