Líf og fjör á leikskólanum Barnabóli

 

Á leikskólanum Barnabóli er hefð fyrir því að halda upp á skammdegið með skammdegishátíð í nóvember og gera þannig  þessum skemmtilega árstíma hátt undir höfði.   Í ár var hátíðin föstudaginn 11. nóvember, settar voru upp ljósaseríur um allan leikskólann, börnin máluð í framan, spiluð tónlist, dansað mikið líf og fjör þennan dag. 

Um hádegið fóru foreldrar barnanna að streyma í hús í heita kjúklingasúpu og brauð og hér borðuðu um 108 manns í hádeginu og er ekki annað að sjá en almenna ánægju með þennan árlega sið.

Einn guttinn, sem einmitt varð tveggja ára þennan dag,  vildi láta mála sig í framan eins og hin börnin en þegar honum var sýndur árangurinn í spegli fór hann að hágráta svo þvo varða alla málninguna af aftur.  Þá tók hann gleði sína á ný enda hafði hann einfaldlega orðið dauðhræddur við þennan ókunnuga ljónastrák!

 

Mánudaginn 14. nóvember bar heldur betur í „veiði“  hjá okkur en þá komu skipverjar á Arnari með branduglu í heimsókn.  Uglan hafði leitað hælis hjá þeim lengst út á miðum, alveg aðframkomin greyið,  en þeim tókst að hressa hana við og koma með hana í land nokkrum dögum seinna.  Trésmiðja Helga Gunnarssonar   hafði tilbúið gott búr fyrir ugluna þegar að landi kom og síðan varð hún nokkurs konar farandugla,  byrjað var á að fara með hana á dvalarheimilið Sæborg,  síðan á leikskólann og þaðan í grunnskólann.   

Þetta var mikil upplifun fyrir leikskólabörnin,  starfsfólk og þá foreldra sem sáu ugluna og við drógum fram allar bækur og myndir sem við áttum af uglum og síðan var lagst í uglufræðslu og m.a. reynt að finna út hvort um eyruglu eða branduglu væri að ræða sem Óli Benna „náttúrufræðingur“ í Höfðaskóla skar síðan úr um að hér væri um branduglu að ræða. 

Framundan er gleðilegur tími m.a. með piparkökubakstri og kertaljósum, gönguferðum,  heimsókn í kirkjuna og aðventunni. 

 

Með kveðju

Þórunn Bernódusdóttir

Leikskólastjóri