Líkami og sál í stafagöngu.

 

Heilsuræktarhópurinn Líkami og sál á Skagaströnd gekkst fyrir námskeiði í stafagöngu laugardaginn 21. okt. Þátttakendur í námskeiðinu voru 23 og leiðbeinandi var Guðný Aradóttir stafagönguþjálfari.

Stafaganga hefur í auknum mæli verið að ryðja sér til rúms í íslenskri heilsurækt sem skemmtileg og holl líkamsþjálfun. Hún á rætur sínar að rekja til Finnlands þar sem gönguskíðamenn tóku upp á því að ganga við stafina yfir sumartímann til að halda sér í þjálfun. Þessi gönguaðferð ber enska heitið “Nordic Walking” en Finnarnir kalla hana í gríni Alsheimer-skíðagöngu því þar sé um að ræða skíðagöngumenn sem hafi gleymt að setja á sig skíðin.

Stafagangan er hins vegar mjög góð þjálfun bæði fyrir þá sem eru heilbrigðir og vilja halda sér í góðu formi og einnig fyrir þá sem þurfa á endurhæfingu að halda og eru að ná sér eftir meiðsli eða sjúkdóma. Hún er einnig talin henta vel fyrir þá sem eru yfir kjörþyngd.

Áhrif stafagöngunnar á líkamann eru talin margvísleg og ýmislegt í henni sem ekki næst með venjulegri göngu. Hún er talin virkja og styrkja efri hluta líkamans og auka hreyfigetu í axlaliðum. Með hjálp stafanna dregur úr álagi á mjaðmir, hné og ökla. Brennsla er talin verða 20% meiri en við venjulega göngu og hjartsláttur eykst um 16% eða 5-20 slög á mínútu. Súrefnisupptaka eykst því verulega eða allt að 46%.

 

Við gönguna eru notaðir sérhannaðir stafir sem eru léttir og sveigjanlegir með sérstökum ólum sem henta þessari notkun. Þótt ekki virðist mjög flókið að fara í gönguferð með tvo stafi er málið ekki alveg svo einfalt. Mjög mikilvægt er að tileinka sér rétta tækni við gönguna svo árangur verði sem bestur. Í byrjun er því heppilegast að fá kennslu í undirstöðuatriðum hjá viðurkenndum leiðbeinanda og það var einmitt verkefnið hjá heilsuræktarhópnum Líkama og sál.

Hvort sem það tengdist stafagöngu eða ekki er skemmtikvöld hjá hópnum í kvöld, laugardag og hugmyndin að næra bæði líkamann og sálina með ýmsu móti.

(Heimildir: Fræðslubæklingur ÍSÍ – Stafaganga góð leið til heilsubótar. og www.stafaganga.is )