Listamaðurinn Nadage ber lof á Skagaströnd

„Á sýningunni verð ég með 14 stór málverk sem ég gerði á meðan ég dvaldi í Nes listamiðstöðinni á Skagaströnd í fyrra. Til viðbóar taka sautján íslenskir listamenn þátt í sýningunni, þeirra á meðal Anna Sigríður sem var samtímis mér á Skagaströnd.“

Þetta segir listamaðurinn Nadage Druzkowski, góð vinkona Skagastrandar, sem dvaldi í bænum í fjóra mánuði á síðasta ári. Hún eignaðist marga góða vini hér sem hafa haldið sambandi við hana og hún hefur verið dugleg að láta vita af sér enda stefnir hún að því að koma aftur sem fyrst.

Nedage tekur eins og fram kom þátt í sýningunni „Arts et traditions L’Islande Autrement ...” sem hefst í byrjun næsta mánaðar í Strasbourg í Frakklandi og standa mun út júlí.

Heiti sýningarinnar má til dæmis þýða „Ísland af öðru sjónarhorni“. Á sýningunni verður mikill fjöldi listaverka af öllu tagi, málverk, ljósmyndir, hreyfimyndir og fleira. Nadage segist muni halda þrjá fyrirlestra um Ísland og íslenska menningu. 

Sýningin verður á tveimur stöðum Salle de l’Aubette (Place Kléber) og Sofitel- hótelinu. Hún verður opnuð þann 2. júlí og verður margt gáfumanna viðstatt meðal annarra sendiherra Íslands í Frakklandi, Þórir Ibsen.

Í tölvupósti sínum til Signýjar Ó. Richter á Skagströnd, segir Nadage að hún muni einnig taka þátt í sýningu sem haldin verður í London og nefnist Florence Trust Summer Exhibition. Hún er í tilefni þess að Nadage hefur nú lokið eins árs dvöl í listamiðstöðinni Florence Art í London, þar sem hún hefur verið frá því hún fór frá Skagaströnd.

Í tölvupósti sínum til Signýjar segir Nadage:

„Þú mátt nefna það að þessi listamiðstöð í London er mjög vandfýsin á listamenn. Ég hef hins vegar fengið mjög góða dóma fyrir þessi verk sem ég mun sýna en þau vann ég ... á Skagaströnd.“

Meðfylgjandi er mynd af verki sem Nadage vann á Skagaströnd og er af Vaðlaheiði. Einnig fylgir mynd af boðskortinu á sýninguna í Frakklandi. Óhætt er að prenta það út og kemst þá viðkomandi á sýninguna ...