Listaverkið Laupur og álagasteinninn

Nýlega afhenti Erlendur Magnússon, listamaður á Blönduósi, Sveitarfélaginu Skagaströnd fagurt listaverk sem komið var upp við Bjarmanes, ofan við fjöru. Listaverkið nefnist Laupur og er á fögrum stuðlabergsdrangi sem ættaður er úr Spákonufellshöfða.

Þó listaverkið sjálft sé afskaplega mikilfenglegt mátti heyrast á listamanninum að ekki hafi allt gengið eins og á var kosið við gerð þess. Erlendur var fáanlegur til að létta á hjarta sínu við tíðindamann skagstrond.is.

„Sjáðu nú til,“ segir Erlendur, alvarlegur í bragði. „Fyrir meira en þúsund árum bannaði Þórdís spákona öllum mönnum að flytja steina úr Höfðanum á Skagaströnd annars hefðu þeir og þeirra fólk verra af. Þessi álög hafa oft komið fram síðan. Til dæmis var grjót tekið þar í byggingu á hafnar á Skagaströnd og hvarf þá öll síld frá Norðurlandi ...!“

Listamaðurinn lítur nú upp úr kaffibolla sínum á fölan viðmælanda sinn sem má vart mæla. Og hann heldur áfram:

„Fyrir tveimur árum var fluttur steindrangur úr Höfðanum til Gamla bæjarins við Blöndu og sá hefur reynst hinn mesti álagasteinn. Nýr eigandi steinsins, nefnilega ég, hafði fengið hann í skiptum fyrir gamlan kolaofn úr elsta íbúðarhúsinu við Blöndu og var ofninn fluttur í Árnes, elsta íbúðarhúsið á Skagaströnd. 

Fljótlega eftir komu steinsins í Gamla bæinn við Blöndu fór að bera þar á allskonar óáran. Þessi þrjátíu húsa og friðsami bæjarkjarni hefur síðan verið að breytast í lítið Las’t Vegas norðursins með þremur til fjórum börum, hóteli og fjórum gistihúsum, áfengisútsölu, félagsheimili AA og fleira.

Meira að segja gamla kirkja bæjarins sem stendur í þessum bæjarhluta,var afhelguð og bekkirnir notaðir sem barstólar. Þó tók steininn úr þegar fjórar konur voru kosnar í bæjarstjórn á Blönduósi í vor en þar höfðu karlar einir ráðið ríkjum áður.“

Tíðindamaður kyngdi og mátti vart mæla. Hversu hrikalegt er nú ólán Gamla bæjarins við Blöndu, allt út af Þórdísi spákonu og grjóts úr Höfðanum hennar.

En Erlendur var ekki hættur: „Eftir að steinninn var fluttur á nýjan stað við ósa Blöndu gengu álögin svo nærri nýja eigandanum, sem sagt mér, að áður en hann gat snúið sér við var búið að stela af honum bæði bíl og konum. 

Og hvað gat ég gert nema krefjast þess að Sveitarfélagið Skagaströnd tæki steininn til baka með öllu sem honum fylgdi og mér væri bættur skaðinn með nýrri konu sem þó mætti vera gölluð á eins og kolaofninn hafði verið.“

Nú mildaðist svipur Erlends, listamanns, enda hér komið í sögunni að hann fengi nýja konu, eða það hélt tíðindamaður.

„Nú, Sveitarfélagið skipaði þarna sátta-, sannleiks- og matsnefnd sem komst einfaldlega að því að ekki væri til gölluð kona á Skagaströnd. Hins vegar samþykkti hún af náungakærlega sínum að taka steininn til baka með aukahlutum, en greiða aðeins fyrir þá þar sem þeir ættu ekki verðlista yfir gallaðar konur. Vonast aðilar svo til þess að Þórdís spákona og dætur hennar verði sáttar við þessi málalok og létti álögunum.“

Og nú hallaði Erlendur Magnússon, stórlistamaður, sér aftur í stólnum, og auðséð var að honum var létt yfir lyktum mála, þó kvenmannslaus væri, eftir sem áður.

Á meðfylgjandi mynd er sátta-, sannleiks- og matsnefnd og fyrrverandi eigandi, Erlendur Magnússon, við umræddan álagastein og fylgihluti hans. 

Á steininum er mannvistarhreiður með eggi frá 2009 og fuglinn Fönix sem hefur sig til flugs sem tákn um betri tíma bæði fyrir Skagaströnd og Gamla bæinn við Blöndu. 

Þess ber að geta að það sem listamaðurinn kallar fylgihluti er einfaldlega mikilfenglegt listaverk sem unnið hefur verið úr mannvistarleifum ýmiskonar.