Listin: Hinn kaldi klaki, íslandið, sjósettur

Í köldu Norður-Atlantshafinu marar hvítur klakinn. Ísland er réttnefni, bundið í viðjar frosts, ekki vottar fyrir funa. Báran blá er hins vegar ekki svo ýkja köld er hún gælir blíðlega við bláan ísinn. Atlotin eru banvæn og auðvitað missir hann smám saman tök sín á sjálfum sér og umhverfinu. Landið lætur strax á sjá og allir vita sem vilja að innan skamms muni hafið umbreyta því og allt verður sem fyrr. Kalt Norður-Atlantshafið heldur áfram iðju sinni, hin óútreiknanlega bláa bára líður áfram sem örlagavaldur lands og íss. Klakinn hverfur.

Sunnan úr höfum kom brasilíska listakonan Renata Pavdovan að strönd Skagans. Hún fékk starfsmenn tveggja fyrirtækja, Vélaverkstæðis Skagastrandar og Rafamagnsverkstæðisins Neistans til að útbúa mót með útlínum Íslands. Hún frysti vatnið og í síðla dags í gær var hvítur klakinn, íslandið, flutt niður í Vík og sjósett. Fjöldi manns var vitni að því er báran bláa, sem þó var frekar grá, tók á móti ísnum, slípaði hann til, lagfærði hann, gerði straumlínulagaðra, ef svo má að orði komast. Og svo hvarf hann, varð ósýnileg viðbót fyrir Atlantshafið.

Og hver er svo hin dulda merking í uppákomunni, innsetningunni svo gripið sé til orðfæris listamanna?

Birting listarinnar á að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Um leið skiptir tilgangur listamannsins minna máli.
 
Var þarna verið að lýsa stöðu þjóðarinnar um þessar mundir? Ísland bundið í klafa skulda og efnahagurinn harðfrosinn. Framtíðin er líklega sú að skuldirnar greiðast upp og þíða kemst í efnahaginn en um leið verður landið að engu.

Eða er harðfrosið landið í miskunarlausum sjó Evrópusambandsins þar sem sérkennin verða að engu og með tímanum hverfur þjóðin í haf mannfjöldans.

Nöturlegar framtíðarhorfur en hver veit nema brasilíska listakonan á Skagaströnd hafi aðra, bjartsýnni og háleitari sýn með listaverkinu Ísland.

Það er nú það ...