Ljóskristallar!

Á Hnappstaðatúni hefur verið sett upp útilistaverk sem er upplýstur kristall - bleikur á lit sem skín í haustmyrkrinu. Það er franska listakonan Delphine Perlstein  sem á heiður af verkinu en hún dvaldi í Nes listamiðstöð í ágústmánuði. Lýsingu í verkið hannaði Hallbjörn Björnsson, rafvirkjameistari. Delphine stundaði nám við Sorbonne háskólann eða Svartaskóla eins og hann hefur um aldir verið nefndur á Íslandi, eftir að Sæmundur fróði var þar. Það kemur því kannski ekki á óvart að hún sæki merkingu í verk sín dýpra en virðist við fyrstu sýn.

 

Í lýsingur sinni á verkinu segir Delphine:

Þessi skúlptúr er byggður á gullnu formi fimmhyrningsins sem inniheldur hin gullnu reglu þríhyrningsins sem aftur var undirstaða stærðfræðireglu Fibonnacci.

Fimmhyrningur er tákn fullkomnunar, lífs, fegurðar og ástar. Hann vísar stundum til Venusar, hinnar helgu kvenímyndar.

Kristallarnir eru 7 sem er einnig heilög tala eins og við þekkjum frá sjö undrum veraldar.

Sem steinn hefur kristallinn mátt hreinsunar á umhverfi sínu. Hann móttekur ljós og magnar það upp. Á hinu andlega sviði er kristallinn vörn og hefur hreinsunarmátt fyrir sálina og hjálpar okkur að ná markmiðum okkar. Hann er góður fyrir hugleiðslu og skarpskyggni. Hann gefur frá sér orku og raðar upp orkustöðvum mannsins. Hann er margbrotinn og fullkominn steinn.

Ætlunin með gerð skúlptúrsins var að skila fallegri hugsun tengdri ást, fegurð, orku, heiðarleika og sannleika sem er meðvitað blandað saman í þeim tilgangi að hugleiða þau.

Bleiki liturinn í verkinu er litur rósarinnar, tákn lífsins sem minnir á að lífið er verðmætt og við verðum að gæta þess vel.  Kristalnum er stillt upp þannig að hann opnast eins og blóm og í grunninn er öll uppstilling verksins vísun í móður náttúru bæði sem kristallar og samlíking við blómkrónuna. Mér fannst einnig mjög áhugavert að stilla verkinu upp miðsvæðis á Skagaströnd og mynda þannig hlekk milli náttúru og menningar. Það er einnig gaman að sjá verkið í svon fallegu umhverfi.