Ljósmyndasafn Skagastrandar opnað á vefnum

Ljósmyndasafn Skagastrandar var formlega tekið í notkun  í dag.Það var oddviti nýkjörinnar sveitarstjórnar, Adolf H. Berndsen, sem opnaði safnið. Slóðin á vefinn er http://myndasafn.skagastrond.is. Einnig má sjá link á vefinn á forsíðunni á skagastrond.is.

Ljósmyndir af lífi og starfi Skagstrendinga, mannvirkjum og umhverfi í allt að 100 ár verða smám saman aðgengilegar Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa. Stefnt er að því að setja ljósmyndasafnið allt á vefinn. Til framtíðar er sú undirliggjandi stefna að á honum megi finna myndir af sem flestum Skagstrendingum, lífs og liðnum. Starfsmaður safnsins er Hjalti Viðar Reynisson og er hann í hálfu starfi við verkefnið.

Ljósmyndavefurinn mun án efa vekja mikla ánægju. Vonast er til að fólk sem á myndir vilji annað hvort gefa safninu þær eða leyfa afritun af myndunum og birtingu. 

Víða í kössum leynast gamlar myndir sem voru í eigum afa og ömmu eða langafa og langömmu. Oft veit enginn lengur hverjir eru á þeim eða hvenær þær voru teknar. Slíkar myndir eiga tvímælalaust heima á vef Ljósmyndasafnis Skagastrandar. Þar eru miklar líkur á að einhver kannist við myndefnið og sendi inn upplýsingar.

Þetta er einmitt einn af kostum vefsins. Í makindum heimavið er tilvalið að skoða myndirnar og velta myndefninu fyrir sér. Telji einhver að myndatexta vanti eða honum sé að einhverju eða öllu leyti áfátt getur hann auðveldlega skráð inn á vefinn þann texta sem hann telur réttan. Þannig safnast oft saman ítarlegri og betri upplýsingar en mögulegt væri að afla með öðrum aðferðum.

Ótalinn er sá möguleiki sem stunda samtíma söguskráningu. Hér er átt við ýmis konar atburði í bæjarmálum sem um leið er orðin aðgengileg öllum almenningi. Sem dæmi má nefna myndir frá sjómannadeginum, kántrýdögum, ýmis konar uppákomum hjá grunnskólanum, leikskólanum, Sæborgu eða einstökum fyrirtækjum. 

Vefurinn er í aðalatriðum þannig upp byggður hægt er flokka myndirnar eftir efni þeirra. Nú eru þegar komnir nokkrir flokkar og þeim á áreiðanlega eftir að fjölga:
 • Bílar
 • Forsetaheimsóknin 1988
 • Gamla kirkjan
 • Hafnarframkvæmdir 1991
 • Höfðahreppur 50 ára
 • Kántrýhátíðir
 • Póstkort
 • Réttir
 • Sjómannadagurinn
 • Skip og bátar
 • Slippurinn vígður 1995
 • Snjór
 • Tískusýning
 • Uppstilltar hópmyndir
 • Útimarkaður við gamla Kántrýbæ
Einnig gefst kostur á að leita að myndum eftir tiltekna ljósmyndara og er þá hvort tveggja átt við áhugamenn sem atvinnumenn og jafnvel söfn úr eigu tiltekinna aðila. Nefna má að á vefnum eru myndir frá því um þarsíðustu aldmót sem Edward Hemmert tók.

Ljósmyndavefurinn er hannaður af Jóhanni Ísberg. Fjölmörg sveitarfélög víða um land hafa keypt þennan vef og nota hann mikið. Nefna má Akranes og Stykkishólm og á báðum stöðum er hann mikið notaður.

Á meðfylgjandi litmynd er oddviti sveitarstjórnar að opna vefinn og hjá honum stendur starfsmaður safnsins, Hjalti Viðar Reynisson.

Efsta svarthvíta myndin er af konu með hrífu. Hún hét Rósa Jónsdóttir og var frá Spákonufelli.

Á næstu mynd eru Þuríður, Árni og Hermann frá Litla Bergi.

Síðasta myndin er af óþekktri stúlku með brúðu í fanginu.

Þessar myndir og aðrar má sjá á ljósmyndavefnum og þar má gera tillögu um betri myndatexta, laga eða breyta.