Ljósmyndasýning á Hafnarhúsinu

 

LJÓSMYNDASÝNING

 

Skagaströnd, sumarið 2014. 

 

Sýningin er utanhúss á austurvegg Hafnarhússins og stendur til hausts.

 

Vigdís H Viggósdóttir sýnir 12 mynda seríu sem nefnist SAMRUNI.

Viddý eins og hún er kölluð, útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum nýverið.

 

  Tilurð verksins:

 

Dag einn á hefðbundnum göngutúr gekk ég fram á gömlu ruslahaugana sem fyrir margt löngu var búið að afleggja, allavega af hálfu yfirvalda. En eins og oft vill verða, losar fólk sig við rusl bara þar sem því hentar.

 

Fyrst fylltist ég reiði og vonleysi, en fór svo að rýna í ruslið og undraðist hvað móðir-jörð er mögnuð. Þarna var ruslið að renna saman við náttúruna, mosi og annar gróður að taka sér bólfestu í því. Sól, frost og vindur lögðu sitt af mörkum við að brjóta það niður.

 

Ég fylltist von og ferlið blasti við mér, náttúran mundi að lokum sigrast á þessum óhroða. Þá sá ég líka hvernig ruslið hefur hliðstæðu í lífi okkur. Við lendum í áföllum og syrgjum, verðum beygð og okkur svíður undan þessu andlega fargi.

 

Eftir að hafa tekist á við áfallið, verðum við sátt í eigin skinni, þroskumst. Verkið heitir SAMRUNI, með vísun í ákveðið tímabil í ferli sem byrjar á sorpi/sorg og endar með sigri.

 

Ferlinu er líst með 8 orðum sem öll byrja á S (sjá spjöld á sýningu) Einungis 8 orð þurfti til að segja þessa sögu, auk þess er talan 8 vísun í eilífðartáknið, þar sem náttúran endurtekur sig, hringrás með eilítið breyttri ásýnd í hverri umferð, en óslitin.

 

Viddý Viggós