Ljósmyndasýning opnuð í miðbæ Skagastrandar

Ljósmyndasýningin „Skagaströnd í nýju ljósi“ verður formlega opnuð í miðbæ Skagastrandar í dag kl. 13. Sýndar eru tuttugu myndir eftir þrettán ljósmyndara. Myndirnar valdi dómnefnd sem skipuð var vegna ljósmyndasamkeppni sem Sveitarfélagið Skagaströnd stóð fyrir í júní. 

Mikil þáttaka var í keppninni og sendu tuttugu og fjórir ljósmyndarar 154 myndir í keppnina. Af þeim voru 20 myndir valdar fyrir sýninguna.

Tilgangurinn með ljósmyndasýningunni er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem í sveitarfélaginu. 

Myndirnar tuttugu hafa nú verið prentaðar á álplötur. Og festar á ramma sem Trésmiðja Helga Gunnarssonar á Skagaströnd sá um að útbúa. 

Sýningin mun standa fram undir miðjan september.