Málun grunnskólans

Höfðaskóli sem verið hefur bleikur frá 1995 mun hljóta nýjan svip og nýjan lit á næstu vikum. Samið hefur verið við Trésmiðju Helga Gunnarssonar að endurmála skólahúsið. Þegar undibúningur hófst að því verki kom í ljós að gamla málningin var orðin svo þykk á elsta hluta hússins að ákveðið var að hreinsa hana af því ella myni hún springa og flagna af. Sprunguviðgerðir munu einnig fara fram áður en yfirmálun verður framkvæmd. Litur hússins hefur verið skemmtilega til umræðu undanfarin ár. Margir hafa látíð í ljósi efasemdir um hinn bleika lit en aðrir hafa látið sér vel líka. Flestir hafa haft skoðun á litnum og orðaskipti um hann oft verið skemmtileg. Nú mun væntanlega kveða við annan tón í litavalinu en ráðamenn skóla og sveitarfélags hafa sett um véfréttasvip þegar spurt hefur verið um litinn. Hvað sem því líður þá er skólinn nú í tveimur litum, gamla gula litnum sem upphaflega var á húsinu og bleika litnum sem einkennt hefur húsið undanfarin ár. Reiknað er með að verkinu verði lokið í septembermánuði.