Málverkasýning Davíðs

Davíð Örn Halldórsson hélt einkasýningu á málverkum sínum á Skagaströnd í ágústmánuði. Sýningin opnaði um verslunarmannahelgi og var opin meira og minna allan ágústmánuð. Davíð útskrifaðist úr Listaháskólanum vorið 2002 og vakti lokaverkefni hans þar talsverða athygli þar sem hann málaði myndir á fermingarkommóður. Davíð segist mikið mála á húsgögn en þó aðallega á allskonar tréplötur. Honum finnst hins vegar sérstaklega áhugavert að mála á hluti sem aðrir eru hættir að nota og hann ýmist finnur eða fær gefins. Sama gildir að hluta til um málninguna sem hann notar. Iðnaðarmálning sem liggur í afgöngum er honum fyrirtaks úrvinnsluefni og hann leggur sérstaklega upp úr því að endurnýta eða fullnýta efni. Honum finnst ekki ástæða til að bæta endalaust á ruslahauga heimsins heldur þurfi að nýta efnin og gera þau að listmunum eða nytjahlutum. Davíð fluttist til Skagastrandar haustið 2002 með kærustunni Tinnu Guðmundsdóttur sem gerðist kennari á staðnum. Hann fékk aðstöðu í gömlu “Sigga-búðinni” Borg gegn því að hann hreinsaði til í húsinu. Þegar hann opnaði sýninguna fannst honum tilvalið að nota hugtakið Gallerí Borg um sýningarstaðinn. Í sýningarskrá segir Pétur Már Gunnarsson í umsögn sinni: “Fyrstu myndir Davíðs sem tala má um sem fullunnin verk, u.þ.b. 15 ára gömul, eru alveg eins og nýju verkin hans og öll þar á milli. Frá fyrsta striki til þess síðasta hefur hann teiknað upp hluti í absúrd samhengi og unnið þar til þessir hlutir og fletir smella saman í heila mynd. Eins og sjá má á þessari sýningu. Davíð er heill í list sinni og lætur ekki vitsmunadaðrið í abstraktinu villa sér sýn eða hið fígúratíva hlutbinda sig á klafa, heldur vinnur hann jafnt með þessa tvo póla. Yfirleitt innan sömu myndar og gerir þeim slík skil með hliðsjón af listasögunni að til dæmis Philip Guston virðist ekki alveg haf vitað hvað hann var að gera.” Í haust heldur Davíð til Noregs því hann hefur fengið styrk til að vinna þar á tréverkstæði. Hann hefur þó ekki alveg sagt skilið við Skagaströnd því kærastan er enn að vinna þar sem kennari. Davíð segist vera ánægður með sýninguna og hann hafi selt nokkrar myndir.