Menningarráð úthlutar sjö styrkjum til Skagstrandar

Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði í gær, 22. apríl, 15,3 milljónum króna í verkefnastyrki. Umsóknarfrestur rann út þann 15. mars síðast liðinn og bárust 85 umsóknir þar sem óskað var eftir tæpum 50 milljónum króna.

Sex aðilar á Skagaströnd fengu styrki að þessu sinni.
  • Sveitarfélagið Skagaströnd fékk 150.000 króna styrk til að halda ráðstefnu um sögu pólitískra samskipta Íslands við önnur ríki. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Fræðasetur Háskólans á Skagaströnd sem tekur til starfa í dag og er ráðstefnan haldin á morgun, 24. apríl. Tilefni ráðstefnunnar er að 150 ár eru liðin frá fæðingu Valtýs Guðmundssonar sem var merkur stjórnmálaleiðtogi um þarsíðustu aldamót.
  • Skagaströnd fékk einnig 150.000 króna styrk til að halda ljósmyndasýningu utanhúss í sumar. Á síðasta ári stóð sveitarfélagið fyrir ljósmyndasýningu þar sem sýndar voru 50 árar gamlar myndir af síldarvinnslu á Skagaströnd. Sú sýning stendur enn og eru risastórar svart-hvítar ljósmyndir sýndar á húsgöflum víða um bæinn.
  •  Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd fékk 200.000 króna styrk til að halda gospel tónleika.
  • Elías Björn Arnason fékk 150.000 króna styrk til að gefa út geisladisk með undirleik við öll lög í sálmabók barnanna.
  • Menningarfélagið Spákonuarfur fékk 150.000 króna styrk til að gefa út bók um sögu Þórdísar spákonu. Á meðfylgjandi mynd tekur Dagný M. Sigmarsdóttir við viðurkenningarskjali til staðfestingar á styrknum.
  • Nes listamiðstöð fékk 100.000 króna styrk til að halda myndlistarsýningu.
  • Loks fékk Sigurður Sigurðarson, áhugaljósmyndari, 100.000 króna styrk til að halda ljósmyndasýningu sem hann nefnir „Spákonufell, kringinn í hringum“.