Mynd vikunnar

Ljósmynd: Ólafur Bernódusson
Ljósmynd: Ólafur Bernódusson

Myndin var tekin á Höfðanum 18. maí 2008. Á henni eru nokkrir hrafnsungar í laupnum, en það er hreiður hrafnsins kallað. Krummi leggur mikla vinnu í að útbúa laupinn og skreytir hann gjarnan með litríku plastrusli, vírbútum og öðru sem hann finnur. Hrafnshjónin eru hvert öðru trygg og eru í hjúskap ævilangt. Hann verpir snemma þannig að þegar ungarnir koma úr eggjunum eru aðrir fuglar að byrja að verpa. Þetta kemur sér vel fyrir krumma því hann hikar ekki við að stela eggjum annarra fugla sér og ungum sínum til viðurværis. Annars er hann tækifærissinni í fæðuvali og étur flest sem að goggi kemur. Hrafninn er staðfugl og stærstur spörfugla á Íslandi. Nú er sá tími ársins sem ungar eru að koma úr eggjunum. Sýnum þeim tillitssemi og reynum að passa að kettirnir nái þeim ekki.