Mynd vikunnar

Ljósmynd: Árni Geir Ingvarsson
Ljósmynd: Árni Geir Ingvarsson

Þessi bátsskrokkur er uppi á túni rétt sunnan við Sandlækinn. Þetta er skrokkurinn af Ólafíu HU en um hana segir í bókinni: "Sjósókn frá Skagaströnd & vélbátaskrá 1908 - 2010" eftir Lárus Ægi Guðmundsson: "Um 1944 eignuðust þeir Kjartan Sveinsson og Ólafur Magnússon, farkennari í Skagahreppi, stóran bát og nefndu Ólafíu. Þessi bátur var með 12 ha. Bolinder vél. Jakob Óskarsson var formaður á honum. Eitt sinn bilaði vélin í róðri og var þá tekið til segla og siglt inn með landi. Sennilega hefur Jakobi ekki litist á að sigla fyrir Höfðann því hann renndi á land utan við Sandlæk. Þar var bátnum dröslað upp og vélin tekin úr en hún komst aldrei í viðgerð enda mun Kjartan þá hafa verið farinn að kenna sjúkleika en hann lést 1949. Báturinn lá lengi í fjörunni en að lokum hirti Jóhann Pétursson á Lækjarbakka hann og dró á túnblett sem hann hafði til afnota rétt innan við Sandlæk. Þar hvolfdi hann bátnum, sagaði dyr á síðuna og hugðist nota sem beitarhús. Í túnhorninu má enn sjá leifarnar af Ólafíu. Gunnar Albertsson gekk árum saman margar ferðir út bakkana því hann þóttist vita að þar væri Bolinder vélina að finna. Að endingu fannst hún á kafi í mold og sinu og nú prýðir hún innganginn að húsi hans að Oddagötu 5." 

Bók Lárusar kom út 2011 þannig að  ekki er víst að í dag sé rétt fullyrðingin um að Bolinder vélin sé á lóðinni við Oddagötu 5. Gunnar Albertsson lést 27.7.2019 og Jóhann Pétursson dó 13.1.1999. Dánardægur annarra sem nefndir eru í tilvitnuninni eru  ókunn.  Flakið af Ólafíu er enn á sama stað en er farið á láta mjög á sjá.

Ljósmyndasafn Skagastrandar