Mynd vikunnar

Ljósmynd: Minjasafn Skagastrandar
Ljósmynd: Minjasafn Skagastrandar

Um þessar mundir (mars 2023) eru tæp 62 ár síðan óhugur og sorg ríkti meðal fólks á Skagaströnd. Ástæðan var að bræðurnir Hjörtur Hjartarson, sem er til vinstri á myndinni, og Sveinn Hjartarson frá Vík fórust í sjóróðri á Húnaflóa á bát sínum Skíði Hu 8, 22. nóvember 1961. Í dagblaðinu Vísi birtist eftirfarandi frétt af málinu hinn 23. nóvember 1961: "Óttast að tveir bræður hafi farizt. Norður á Skagaströnd óttast menn mjög að tveir bræður hafi farizt í róðri í gærdag. — Bræðurnir sem eru Hjörtur og Sveinn Hjartarsynir eiga heima á Skagaströnd og eru menn einhleypir. í gærdag hófst leitin, og hefur henni verið haldið látlaust áfram þrátt fyrir stórsjó og hríð á Húnaflóa. Laust fyrir hádegið átti blaðið tal við Skagaströnd. Var þá tíðindalaust af leitinni, sem varðskipið Óðinn hefur haldið uppi í alla nótt. Var flokkur manns farinn á fjörur. Lítilsháttar frost var, hvasst og hríð. Bræðurnir Hjörtur og Sveinn eru synir Hjartar Klemenzsonar sem er maður við aldur og sjálfur stundaði sjómennsku.<br>Um klukkan 1,30 í gærdag voru bræðurnir undan Skallarifi. Þeir voru þá að draga línuna, en höfðu slitið hana og voru að leita. Var þá orðið hvasst. Var ákveðið að þeir skyldu láta til sín heyra um klukkan 3. Er um 2 og 1/2—3 tíma sigling frá Skagaströnd á þessi mið. Vélskipið Húni var í róðri. Kl. 3 er ekkert heyrðist frá bræðrunum hélt Húni þegar á vettvang og leitaði hann á allri leiðinni frá Skallarifi og inn, en árangurslaust. Í gærkvöldi voru 10 vindstig á Skagaströnd og mikill sjór og hríð. Varðskipið Óðinn kom á vettvang og hóf að leita, og leitaði enn í morgun en hafði einskis orðið vart. Óttast sjómenn á Skagaströnd, að brot hafi komið á bátinn, en sjólag er mjög slæmt undan Skallarifi. Bræðurnir Hjörtur og Sveinn eru menn á fertugsaldri og hafa stundað sjóinn í sameiningu á bát sínum, en hann var 8 tonn dekkbyggður".

Ljósmyndasafn