Mynd vikunnar

Ljósmynd: Árni Geir Ingvarsson
Ljósmynd: Árni Geir Ingvarsson

Rjúpan er eftirsótt af mörgum á jólaborðið. Hún er af orraætt, staðfugl á Íslandi en verpir í mörgum öðrum löndum á norrænum slóðum. Kvenfuglinn, eða hænan, er um 500 gr að þyngd en karlfuglinn, sem kallast karri, er um 550 gr. Rjúpa skiptir þrisvar á ári um lit, hvít á vetrum, brún á sumrin og gráleit á haustin. Hún verpir að jafnaði 12 eggjum þannig að frjósemin er mikil enda verður hún að meðaltali ekki nema þriggja til fjögurra ára gömul þó þær elstu verði 6- 7 ára. Rjúpnafjöldi á Íslandi sveiflast mikið og eru ca 10 ár milli toppa. Ekki er fullljóst hvað veldur þessum sveiflum en þær tengjast ekki skotveiðum manna segja vísindamenn. Helstu óvinir rjúpunnar eru fálki og refur auk mannsins sem sækir í að veiða hana á leyfðum veiðitímabilum. Á þessu ári er leyfilegt að veiða rjúpu alla daga í nóvember nema á miðvikudögum og fimmtudögum. Mjög vel er fylgst með rjúpnastofninum á Íslandi og líklega eru fáir fuglastofnar jafn vel vaktaðir af vísindamönnum.