Mynd vikunnar

 

Séra Pétur og Dómhildur


Séra Pétur Þ. Ingjaldsson ( f. 11. janúar 1911 - d.1. júní 1996 )
þjónaði sem prestur á Skagaströnd í 41 ár.
Pétur var afar farsæll í öllum störfum sínum, maður vinsæll og
eftirminnilegur öllum þeim er honum kynntust.
Hann hóf prestsskap sem sóknarprestur að Höskuldsstöðum 1941,
en þá heyrði  sóknin á Skagaströnd undir Höskuldsstaði.
Pétur flutti til Skagastrandar á sjötta áratugnum og  bjó lengi í
Höfða en seinna að Hólabraut  1, sem þá var prestbústaður
á Skagaströnd.
Prófastur varð Pétur 1967 og var stuttu seinna kjörinn á kirkjuþing
þar sem hann starfaði þar til hann hætt prestskap.                                                             
Séra Pétur giftist Dómhildi Jónsdóttur
(f. 22. mars 1926 - d. 18. nóvember 2012 ) húsmæðrakennara frá
Akureyri  eftir að hann var kominn á miðjan aldur og eignuðust
þau hjón tvo drengi; Jón Hall og Pétur Ingjald. 
Eftir að séra Pétur lést starfaði Dómhildur sem safnaðarsystir í
Hallgrímskirkju og sá þar um félagsstarf aldraðra.
Var Dómhildur kraftmikil og vinsæl kona sem lét sig mjög varða málefni
þeirra sem höllum fæti stóðu í þjóðfélaginu bæði meðan þau hjón
bjuggu á Skagaströnd og einnig eftir að hún flutti suður.
Síðustu æviárum sínum eyddi Dómhildur í Hnitbjörgum á Blönduósi.                                                                                      
Í minningargrein sem herra Sigurbjörn Einarsson biskup skrifaði
um vin sinn og skólabróður, séra Pétur Ingjaldsson eru eftirfarandi orð sem
þeir sem þekktu Pétur geta heilshugar tekið undir:


" Þegar sr. Pétur Ingjaldsson lagði út í prestsskapinn
hafði hann ekki háar hugmyndir um sjálfan sig.
Það er mér kunnugt um. En hann var ráðinn í því að
vera Guði sínum og kirkju hollur og trúr í vandasömu starfi.
Því áformi hefur hann ekki brugðist. Hann barst aldrei á í neinu.
En það fundu allir, að hann var heil persóna, að á bak við orð
og gerðir var ósvikin lund, falslaust, gott hjarta.
Öllum þótti gott að leita til hans um ráð í einkamálum og
um stuðning við almenn nytjamál. Hann var samningamaður
góður, laginn á að finna þá fleti á málum, að menn gátu
rætt þau í nýjum anda og fundið samleið til lausnar.
Farsæla vitsmuni hans studdi það skopskyn, sem hann
var svo ríkulega gæddur, og fyrst og fremst góðvildin, sem
stjórnaði öllum viðhorfum til manna og málefna........"