Mynd vikunnar

 
Bankastræti
Gömul mynd af Bankastræti.
Myndin var sennilega tekin  upp úr 1940 en óvíst er með hvenær.
Næst okkur á myndinni er búið að taka grunn að Höfðaborg
(Bankastræti 9). Þar fyrir aftan sést grind að Flankastöðum
(Bankastræti 7) og er þetta a.m.k. annað húsið sem byggt var á
þessum reit undir Flankastaðanafninu.
Þetta er þó ekki húsið sem stendur þarna í dag, það var byggt
miklu síðar.
Lágreista húsið sem ber yfir grindina að Flankastöðum var Kárastaðir
(Bankastræti 5). Seinna var byggð önnur hæð ofan á Kárastaði og
enn síðar var það rifið.
Enn aftar eða fjær okkur á myndinni standa Draumaland og
Dvergasteinn sem bæði eru horfin. Stórholt (Bankastræti 3) er ekki
komið en það var byggt 1950 - 51.
Lengst til hægri á myndinni er Þórshamar við Skagaveg  og síðan
Skálholt sem einnig stendur við Skagaveg. Húsið sem stendur vinstra
megin við Skálholt, dálítið nær Höfðanum, er Höfðakot.
Önnur hús á myndinni eru fjós, hlöður eða hest- eða fjárhús sem
tilheyrðu þeim sem bjuggu við Bankastræti. Þó er húsið, sem stendur
vinstra megin við grindina að Flankastöðum, sennilega eldra
Flankastaðahús sem svo var aflagt með tilkomu hins nýja.
Takið eftir að ekki er búið að gera götuna, Bankastræti, eins og við
þekkjum í dag.
Takið líka eftir fólkinu sem er í heyskap á blettinum neðan við
Tjaldklaufina næst okkur á myndinni.