Mynd vikunnar

 

Jóhanna Hemmert.

-----

Jóhanna Hemmert kaupmannsfrú á Skagaströnd
var fyrsta konan sem kosin var í hreppsnefnd
Vindhælishrepps hins forna árið 1910.
Um þennan merka atburð má finna eftirfarandi klausu í
tímaritinu Norðurland 29. tölublaði (16. 7.1910)
10. árgangi úr grein sem sem ber fyrirsögnina
"Bréf frá Skagaströnd":

"....... Nýmæli eru það, að konur séu kosnar í hreppsnefnd.
Á hreppaskilum Vindhælinga nú í vor, var kona kosin í
hreppsnefnd. Kona þessi er frú Jóhanna Hemmert á Skagaströnd.
Einnig var hún kosin í fræðslunefnd. Það er sómi fyrir hreppsbúa
að hafa riðið á vaðið með að kjósa konu í þessar nefndir og ættu
sem flestir  hreppar að gera hið sama.
Einnig á frú J. Hemmert þakkir skilið fyrir að gefa kost á sér til
þessara starfa. Vonandi að árlega fjölgi konum í hreppsnefndum
víðsvegar um landið og eigi verði langt að bíða þess, að konur
fái fult jafnrétti við karlmenn. 
Ritað í júní 1910.  Skagstrendingur ".

Þess má geta í þessu sambandi að konur og vinnuhjú, 40 ára og
eldri,  á Íslandi fengu  ekki almennan kosningarétt fyrr en  árið
1915. Á árinu 1882 fengu ekkjur og aðrar ógiftar konur, sem 
stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar, kosningarétt til að kjósa til
hrepps- og sýslunefnda, bæjarstjórna og   á safnaðarfundum ef
þær voru orðnar 25 ára gamlar. 
Þó þessar konur mættu kjósa máttu þær  ekki bjóða sig fram
nema að uppfylltum ströngum skilyrðum um eignir, aldur og
sjálfstæði. 
Lögunum var svo breytt 1920 þannig að þá fengu konur og
vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.