Mynd vikunnar

 

Ólafur GuðmundssonÓlafur Guðmundsson skipasmiður lést þriðjudaginn 7. apríl
síðast liðinn, rúmlega 80 ára gamall.
Ólafur, eða Óli skip eins og hann var gjarnan kallaður, flutti til
Skagastrandar með fjölskyldu sína árið 1970 frá Stykkishólmi til að
starfa í Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar hf, sem stofnuð
var það ár.
Óli var verkstjóri í stöðinni og segja má að framgangur fyrirtækisins
hafi byggst á hans kunnáttu og hæfni. Eftir að Skipasmíðastöðin
lagði upp laupana starfaði Óli hjá Mánvör hf og sá síðan um slippinn
í nokkur ár meðfram því að stunda almenna smíðavinnu.  
Óli var afar duglegur og leit aldrei á vandamál sem slík heldur bara
verkefni sem þyrfti að leysa. Þess vegna þótti mörgum gott að
leita til Óla eftir ráðum sem snertu byggingar og aðrar verklegar
framkvæmdir.
Óli var giftur Guðmundu Sigurbrandsdóttur, sem lifir mann sinn, og
saman áttu þau fjögur börn. Er Guðmundu og fjölskyldunni vottuð
samúð á erfiðum tímum.
Á myndinni er Óli á kunnuglegum slóðum við vinnu sína í trébát
í slippnum á Skagaströnd.