Mynd vikunnar


Útför Guðmundar Sigvaldasonar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag föstudaginn 24. febrúar og hefst athöfnin kl. 13:30.

Guðmundur Sigvaldason fæddist 14. apríl 1954 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu, Birkihlíð 6, Hörgársveit þann 8. febrúar 2017. Hann ólst upp í Garði í Kelduhverfi, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1973, BA-prófi í landafræði og prófi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda við Háskóla Íslands 1978.

Eftirlifandi eiginkona hans er Torfhildur Stefánsdóttir grunnskólakennari, frá Tungunesi í Fnjóskadal og eru börn þeirra þrjú; Sigvaldi, Álfheiður og Óðinn.

Meginhluta starfsævinnar starfaði Guðmundur í opinberri þjónustu. Hann kenndi við Stórutjarnaskóla, vann hjá Fjórðungssambandi Norðlendinga og var framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Þá var hann verkefnastjóri hjá Sorpeyðingu Eyjafjarðar og Akureyrarbæ og sveitarstjóri á Stokkseyri, á Skagaströnd og í Hörgárbyggð (síðar Hörgársveit). Síðustu tvö árin sinnti hann bókhaldi fyrir ýmis félög.

Guðmundur var sveitarstjóri á Skagaströnd á árunum 1986 – 1990. Hans er minnst fyrir hlýlegt og alþýðlegt viðmót og vönduð vinnubrögð við allt sem hann tók sér fyrir hendur. Síðustu ár þurfti Guðmundur að takast á við erfið veikindi vegna krabbameins í fæti sem varð til þess að taka þurfti fótinn af við mjöðm. Þá kom vel í ljós æðruleysi hans og þrautseigja þar sem hann lét þessa erfiðleika ekki stöðva sig. Krabbamein er hins vegar illvígur sjúkdómur sem lagði góðan dreng að velli eftir snarpa baráttu.