Mynd vikunnar

 
Guðmundur Jóhannesson.Guðmundur Jóhannesson lést hinn 17. apríl síðastliðinn og
verður jarðsunginn frá Hólaneskirkju fimmtudaginn 3. maí klukkan 14:00.

Uppgjöf er orð sem ekki var til í orðabók Guðmundar Jóhannessonar.
Framsækni, stórhugur og dugnaður voru aftur á móti á fremstu síðu í
þeirri bók. Hann kom að stofnun margra fyrirtækja og stofnana sem til
framfara horfðu á Skagaströnd og lagði hart að sér til að koma þeim á fót.
Guðmundur var maður sem allir vildu hafa í sínu liði því þó hann væri
ekki hávær á fundum og mannamótum vann hann heill og ótrauður að
þeim málum sem hann trúði á.
Þegar hann fékk svo áfall eftir miðjan aldur og lamaðist að hluta kom
uppgjöf ekki til greina heldur þjálfaði hann sig og fann leiðir til að gera
ótrúlegustu hluti, sem menn í hans stöðu áttu engan veginn að geta gert.
Nú, þegar þessi aldni höfðingi gengur glaður og óhaltur inn í ljósið, er hugur
okkar hjá aðstendendum sem kveðja Guðmund með söknuði.