Mynd vikunnar

Ljósmynd: Guðmundur Kr. Guðnason
Ljósmynd: Guðmundur Kr. Guðnason

Á þessari mynd sést vel togbrautin, sem var notuð með hléum á árunum 1974 - 1978, í Spákonufelli. Drifhjól var útbúið og tengt við drifúttak vélarinnar og svo var blökk komið fyrir uppi á hæðinni. Skíðamenn héngu síðan í kaðlinum á leiðinni upp. Bannað var að vera með trefla í lyftunni því kaðallinn sneri upp á sig á leiðinni og átti til að grípa vettlinga sem þá festust við kaðalinn og losnuðu ekki fyrr en á niðurleiðinni. Eitt sinn munaði litlu að slys yrði þegar kona gleymdi sér og fór upp með trefil um hálsinn. Kaðallinn greip endann og byrjaði að snúa honum um sig.  Konan áttaði sig hvað verða vildi og gat losað sig við trefilinn rétt áður en hún kom að blökkinni uppi.  Ásgeir Axelsson (d. 8.6.2011) átti og sá um dráttarvélina og sést hann á myndinni aftan við vélina. Til vinstri er Karl Berndsen (d. 12.2.1995) að búa sig undir að binda á sig skíðin. Aðrir eru óþekktir.