Mynd vikunnar.

 
Hvaladráp fyrir 100 árum.




Veturinn 1918 var einn hinn kaldasti sem kom á síðustu öld.
Hafís þakti Húnaflóa þannig að ekki var hægt að sækja sér björg
úr sjónum. Fólk frá Skagaströnd gat gengið á ísnum a.m.k. inn að
Laxá í Refasveit án þess að óttast mikið að detta í vök á milli jaka.
Í þessu ástandi var það því mikið fagnaðarefni þegar uppgötvaðist að fimm
háhyrningar voru fastir í vök fram af Ytri-Ey. Þeir voru fastir þar því þeir gátu hvergi
annarsstaðar komið upp til að anda. Hvalirnir voru allir drepnir í vökinni og dregnir
upp á ísinn þar sem gert var að þeim og fólk gerði sér mat úr þeim.
Fólk kom víða að framan úr sveitum til að fá kjötbita og fleira sem hægt var
að nýta úr hvölunum. Beinunum og öðru sem ekki var notað var síðan velt
ofan í vökina aftur. Nokkru síðar uppgötvuðust tveir hnúfubakar í annarri
vök dálítið bnorðar. Þeir voru einnig drepnir og fólk gerði sér mat úr þeim.
Á þessari einstöku mynd er fjöldi manns að vinna við að drepa og gera að
öðrum hnúfubaknum úr vökinni. Ein regla var sett á Skagaströnd fyrir þá sem
gengu inn að vökinni en hún var sú að menn máttu ekki vera einir á ferð því
þrátt fyrir allt gat alltaf komið fyrir að menn færu niður úr ísnum.
Það var einmitt það sem kom fyrir mann sem var samferða þeim Steingrími Jónssyni
frá Höfðakoti og Ernst Berndsen frá Karlsskála. Nafn mannsins er ekki þekkt en
hann datt sem sagt í sjóinn gegnum hema yfir smá vök þegar þeir þremenningarnir
voru komnir u.þ.b. hálfa leið frá Skagaströnd inn að Eyjarey.
Ernst og Steingrímur drógu manninn upp og fylgdu honum til baka. Stóð það á
endum að hann komst heim því þá voru fötin hans orðin svo stokkfreðin að
hann var hættur að geta hreyft sig. Þegar heim kom voru fötin dregin af manninum
og hann háttaður í rúmið og heitt vatn í flöskum sett undir sængina hjá
honum. Ekki varð manninum meint af slysinu og var kominn á hvalskurðinn
daginn eftir (skráð eftir munnlegri frásögn Steingíms Jónssonar).
Myndin tók Evald Hemmert.