Námskeið fyrir alla um rekstur fyrirtækja

Fimm þátttakendur hafa skráð sig á námskeiðið Sóknarbraut á Blönduósi og sex á Hvammstanga. Námskeiðið fjallar um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki. 

Það er Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við SSNV og Sveitarfélagið Skagaströnd og Blönduósbæ sem stendur fyrir námskeiðinu. 

Námskeiðið er alls 40 kennslustundir sem skiptast í 10 hluta auk þriggja opinna vinnusmiðja sem þátttakendur geta mætt í og unnið að sínu verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda.  Hver hluti er fjórar klst. Stefnt er að því að námskeiðið hefjist 6. október.

Námskeiðið er ómetanlegt fyrir þá sem áhuga hafa á að stofna fyrirtæki. það gefur góða yfirsýn yfir þau mál sem hafa þarf í huga við stofnun og rekstur. Vitað er að margir Skagstrendingar hafa áhuga á að hasla sér völl í ferðaþjónustu og námskeiðið hentar mjög vel í þeirri atvinnugrein. Lögð er áhersla á markaðssetningu, stjórnun og fjármál. 

Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.