Neyðarlínan 112 tekur við tilkynningum um barnaverndarmál í A-Hún

Samkvæmt barnaverndarlögum er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar um óviðunandi aðstæður barna. Þessi tilkynningaskylda nær bæði til alls almennings, og svo er sérstök tilkynningaskylda lögð á fólk sem starfar með börnum, t.d. starfsmenn skóla og heilsugæslu, að ógleymdri lögreglunni. Nú hefur barnaverndarnefnd í A- Húnavatnssýslu ákveðið að taka þátt í samstarfi Neyðarlínunnar 112 og flestra barnaverndarnefnda á landinu. Þetta fyrirkomulag sem komið var á að frumkvæði og undir stjórn Barnaverndarstofu auðveldar almenningi að koma nauðsynlegum boðum til barnaverndarnefndar um mál sem nefndinni er skylt að láta sig varða. Þetta nýja fyrirkomulag hefur verið kynnt í blöðum og með auglýsingum undanfarið. Nýja fyrirkomulagið Fólk getur nú fólk hringt í Neyðarlínuna 112 og tilkynnt um óviðunandi aðstæður barna. Starfsmenn 112 meta alvarleika tilkynningarinnar og ákveða á grundvelli slíks mats hvort henni verði komið strax á framfæri til starfsmanns barnaverndarnefndar eða hvort beðið verði til næsta virka dags. Sá sem hringir gefur upp nafn sitt, nafn og dvalarstað barnsins, ástæður tilkynningarinnar og aðrar upplýsingar sem starfsmenn neyðarlínu spyrja um.Starfsmenn Barnaverndarstofu hafa fengið sérstaka þjálfun til að sinna þessu verkefni. Á dagvinnutíma getur fólk eftir sem áður snúið sér beint til starfsmanna barnaverndarnefndar í A- Húnavatnssýslu með tilkynningar, spurningar eða vangaveltur varðandi barnaverndarmál. Starfsmenn á félagsþjónustu A- Húnavatnsssýlu eru Dagný Annasdóttir félagsmálastjóri og Ólöf Birna Björnsdóttir verkefnastjóri. Síminn er 455 4100. Samstarfsstofnanirnar eins og heilsugæslan, skólarnir og lögreglan geta líka haft milliliðalaust samband við starfsmennina eins og verið hefur hingað til. Hvað á tilkynna? Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef afar, ömmur, frændur, frænkur eða nágrannar, eru að velta því fyrir sér hvort tilkynna eigi um aðstæður barns : • Líkamlega og andlega vanrækslu • Ofbeldi gegn börnum, • Kynferðislega misnotkun • Ung börn skilin eftir gæslulaus • Foreldrar í fíkniefnaneyslu • Hegðun barnsins mjög ábótavant, t.d. afbrot, árásargirni og ofbeldishegðun Áfengis-og vímuefnaneysla unglinga eða barna Við teljum að flestir viti út frá brjóstviti sínu, hvort barn búi við óviðunandi aðstæður, vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, eða hvort ástæða sé til að óttast að barn stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með eigin hegðun. Ef við teljum svo vera ber okkur að hafa samband við barnaverndarnefnd sem hefur það að hlutverki, að meta hvort ástæða sé til að hafa afskipti af málinu og tryggja í senn að barnið og foreldrarnir fái nauðsynlega aðstoð. Trúnaður og nafnleynd Starfsmenn Neyðarlínu 112 og starfsmenn barnaverndarnefndar eru bundnir trúnaðarskyldu. Í barnaverndarlögunum er einnig fjallað um nafnleynd þess sem tilkynnir. Almenningur, ættingjar eða aðrir nákomnir, geta óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd. Þá er slík beiðni virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Opinberir aðilar t.d. skóli, leikskóli, spítali eða heilbrigðisstofnun, tilkynna í embættis nafni og njóta því ekki nafnleyndar. Dagný Annasdóttir félagsmálastjóri