Norðurá bs. hefur samið um gerð urðunarhólfs

Norðurá bs. hefur gert samning við verktakafyrirtækið Héraðsverk ehf, Egilsstöðum um gerð urðunarhólfs við Sölvabakka á Refasveit.

Samningurinn er gerður á forsendum tilboðs í verkið og er samningsupphæð 198,6 milljónir króna. Verkið er fólgið í tilflutningi 390 þús. m3 efnis úr urðunarhólfi, gerðar hriplags og lagningu þéttidúks í hliðar hólfsins og byggingu hreinsimannvirkis. Einnig eru í verkinu girðingar, lagning aðkomuvegar og gerð þjónustuplans við urðunarstaðinn.

Verkáætlun gerir ráð fyrir að flutningi efnis ljúki í seinni hluta september og gerð söfnunar- og hreinsikerfis fyrir sigvatns verði lokið í seinnihluta október. Verklok eru 1. nóvember 2010.

Með opnun urðunarstaðar að Sölvabakka verður urðunarstöðunum að Neðri Harrastöðum á Skagaströnd, Draugagili við Blönduós og Skarðsmóum við Sauðárkrók lokað. Samningur við Flokkun Eyjafjörður um urðun alls óflokkaðs sorps á Eyjafjarðarsvæðinu að Sölvabakka tekur gildi 1. janúar 2011. Urðunarstaðnum á Glerárdal verður því jafnframt lokað á næsta ári.

Stjórn Norðurár bs.