Norðurstrandarleið

Nú hefur verið opnað fyrir skráningu fyrirtækja í Arctic Coast Way/Norðurstrandarleið en ferðamannaleiðin verður formlega opnuð 8. júní næstkomandi á Degi hafsins.
Arctic Coast Way er nýtt og spennandi verkefni í ferðaþjónustu og er því ætlað að skapa aukið aðdráttarafl á Norðurlandi og kynna landshlutann sem einstakan áfangastað.
Ferðamannavegir þekkjast í ferðaþjónustu víða um heim, sem tæki til þess að beina ferðamönnum eftir ákveðnum leiðum um skilgreind svæði. Norðurstrandarleið fer um alla strandlengjuna, frá Hvammstanga í vestri til Bakkafjarðar í austri.
Til þess að taka þátt í verkefninu þurfa ferðaþjónustuaðilar, sveitarfélög og þorpin eða bæirnir á leiðinni að uppfylla ákveðin skilyrði, sem byggjast meðal annars að miklu leyti á staðsetningu. Þá er grunnforsenda fyrir skráningu í ACW að viðkomandi fyrirtæki sé skráð í samstarf við Markaðsstofu Norðurlands.
Skjal um þátttökuskilyrði og umsóknareyðublað er að finna á vef Markaðsstofu Norðurlands.

Sveitarfélagið hvetur fyrirtæki á svæðinu til að taka þátt í verkefninu í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands.

Sveitarstjóri