Nýir orkumælar á Skagaströnd

Til íbúa á Skagaströnd:

Á næstu vikum mun RARIK hefja uppsetningu sölumæla fyrir nýja hitaveitu á Skagaströnd.

Jafnframt því mun RARIK skipta út raforkumælum og er þetta gert til að nýta samskiptabúnað mælanna til gagnasöfnunar og í leiðinni að taka upp mánaðarlegan rafrænan álestur. Því munu leggjast af árlegar heimsóknir álesara á vegum RARIK.

Ástæða þess að mælaskiptin fara fram samtímis er sú að nýr raforkumælir er notaður sem endurvarpi fyrir merki frá hitaveitumælinum.

Með tilkomu nýrra orkumæla verða sendir út mánaðarlegir raunreikningar bæði fyrir heitt vatn og rafmagn í stað núverandi áætlunarreikninga og uppgjörsreiknings einu sinni á ári.

Nokkuð er um það á Skagaströnd að notaðir eru tveir raforkumælar, einn fyrir hita og annar fyrir almenna notkun. Þær mælingar sameinast nú í nýjum mæli.

Til þess að koma í veg fyrir að viðskiptavinir verði af niðurgreiðslum og lægra VSK þrepi við einmælingu, verður orkumælingu skipt þannig að 85% telst hiti en 15% almenn notkun og verður sú skipting í gildi þar til upphitun með hitaveitu hefst í viðkomandi húsi. Skiptingin er ákveðin af Orkustofnun.

Á næstunni munu starfsmenn RARIK hafa samband við viðskiptavini með það fyrir augum að finna hentugan tíma fyrir mælaskipti.

Bestu kveðjur

RARIK